Eyrarbakki - Saga og Atburðir

Eyrarbakki, sögustaður frá landnámi. Gamlar sögur og atburðir sem tengjast þessum stað.

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Eyrarbakki, Iceland
þorskur.JPGboat1359-Álaborg ÁR 25Björgunarsveitin Björg.BMPEyrarbakki RollerEyrarbakki

laugardagur, september 18, 2004

Jón í Koti

Jón hét maður og bjó í Norðurkoti á Eyrarbakka. Jón var einn af þeim hraustustu strákum sem þorpið hafði alið, en hins vegar var hann afskaplega veikur fyrir vínið.
Eitt sinn var Jón spurður hvort hann væri ekki sterkastur þeirra bræðra, “nei!” sagði hann "það er hann Jakop bróðir, maður er eins og kominn í skrúfstykki í höndunum á honum". Jón í Koti var um fermingu þegar hann gekk til Sýslumannsins (Þorsteins Jónssonar) á Kiðabergi sem ekki bara kenndi honum kverið heldur og líka “kenndi” hann honum að drekka og vildi ekki annan hafa fyrir fylgdarsvein á ferðum sínum.

Eitt sinn er þeir voru í slíkri ferð og voru að týja sig til brottfarar eftir dvöl á Kolviðarhóli var Þorsteinn svo drukkinn orðinn að hann komst ekki upp á klárinn enda sjálfur þungur á velli. “Láttu mig upp á hestinn !” sagði hann við Jón. Skipti nú engum togum en Jón í Koti snaraði honum upp á hnakkinn fyrirhafnarlaust. Þá gall í sýslumanni, “þarna sérðu hvort þú hafir verið illa haldinn hjá mér strákur”. Jón var þá um fermingu.

Eitt sinn lagðist Þorsteinn veikur og varð að senda eftir lyfjum til Keflavíkur og fór Jón í Koti þá ferð. Segir nú ekki af ferðum hans fyrr en hann kemur í Grímsnes á leið sinni til baka frá Keflavík. Hann var þá búinn að ganga í gegnum bæði skó og sokka og héngu bara tægjurnar á fótum hans. Í Öndverðaneshverfinu fær hann lánaðan hest og mátti ríða honum að næsta læk er rann á milli jarða en þaðan mátti hann svo ganga berfættur það sem eftir var heim að Kiðabergi.

Þegar Jón kemur aftur á Bakkann 15 ára, ræðst hann til sjós í Þorlákshöfn og var síðar formaður þar um áratuga skeið. Á árunum 1927-1929 reri hann sem háseti hjá Kristni Vigfússyni í Þorlákshöfn.
Eitt sinn sem oftar kemur Jakobína Jakops að Norðurkoti. Þá var Jón þá kendur og sat inni. Spurði kona hans hvar þeir væru þeir feðgar Jón og Jakop í Einarshöfn. Sagði Jakobína sem var að þeir væru upp á mýri við einhverja sýslan. Þá sagði sú gamla og sneri sér að Jóni sínum. "Það er nú munur eða þú þessi mikli maður, ekki þarft þú mikli maður að vera úti við vinnu eins og hann Jakop bróðir þinn og hann Jón-Jak". Stóð þá Jón í Norðurkoti þegjandi upp og gekk fram fyrir, en kom að vörmu spori með smjörköku í höndunum. Stóð vo á að sú gamla var að elda silungasúpu í potti. Gekk Jón að pottinum með kökuna og setti í pottinn. Þá sagði sú gamla ekki orð. Sá að best væri að þegja.


Þegar Jón í Norðurkoti var ungur réðist hann til Þorsteins sýslumanns í Kiðabergi í Grímsnesi. Þorsteinn var sagður drykkfeldur og hermt er að hjá honum hafi Jón í Norðurkoti lært að drekka vín meðan hann var fylgdarmaður sýslumanns á ferðum hanns um sýsluna og víðar. Oft var sýslumaður vel drukinn í þessum ferðum. Einu sinni kom hann á manntalsþing í Ölfusinu og voru margir bændur komnir til þingsins á undan sýslumanni. En sem hann kemur til þingheims segir hann “Hér eru saman komnir margir hundar” Gall þá við frá Þorgeiri á Núpum. "Já og enn fer þeim fjölgandi". Var þá sagt að hljóðnað hafi í Sýslumanni.

Jón í Koti var fæddur 28.jan.1856 í Norðurkoti sem var hjáleiga frá Skúmstöðum. Foreldrar hans voru Jón Ormsson og Kristín Jónsdóttir. Jón í Koti bjó hjá foreldrum sínum til 13 ára aldurs er hann flutti upp að Kiðabergi í Grímsnesi, til Þorsteins Jónssonar sýslumanns þar sem hann svo fermdist 1870. Á Kiðabergi var hann smali og sat yfir fráfæruám sýslumanns á Hestfjalli um tvö sumur en haustið eftir fermingu flytur hann aftur heim til foreldra sinna í Norðurkoti. Jón byrjaði að róa sem hálfdrættingur 15 ára gamall frá Þorlákshöfn og var þar síðar formaður og sótti þaðan sjó um 50 vertíðir. Jón var rammur að afli, þrekinn og atorkumaður mikill. Jón dó 10 mars 1945 þá 89 ára gamall

S.A.

Efnisorð: , ,

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home