Eyrarbakki - Saga og Atburðir

Eyrarbakki, sögustaður frá landnámi. Gamlar sögur og atburðir sem tengjast þessum stað.

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Eyrarbakki, Iceland
þorskur.JPGboat1359-Álaborg ÁR 25Björgunarsveitin Björg.BMPEyrarbakki RollerEyrarbakki

þriðjudagur, júní 21, 2005

Sagan af Gústa Greyskinn.

Eftir Sigurð Andersen.

Gusti Greyskinn

Á þeim árum sem Kaninn var að taka við hernáminu af Bretanum með alla sína dollara og nýjungar í farteskinu svo sem súkkulaði, ávöxtum, sigarettum og þó umfram allt tyggigúmmí sem krakkarnir á Bakkanum voru sólgnir í og nutu góðs af meðan Kaninn hafði aðsetur í Kaldaðarnesi.

Já líklega hefur það verið um það leiti sem ég fór að gefa manni nokkrum gaum. Hann var miðaldra og í lægra meðalægi á hæðina, þéttholda, klæddur brúnum trollarabuxum og bláum nankinsjakka.
Maður þessi var silalegur í gangi og hjó ölduna í hverju spori með derhúfu á höfði, svo kallaðan sixpensara sem flestir báru í þá daga nema þeir sem báru hatt, en það gerðu aðeins heldri menn.
Það var sérstakt lag á húfuderinu sem hann lét slúta niður á vinstra gagnaugað og ef svo bar undir að hann fengi nýja, þá hnoðaði hann húfuna þar til rétta lagið var komið.
Hann var aldrei kallaður annað en Gústi- Greyskinn og því var fleygt að hann hafi verið kominn til höfuðstaðarins og verið þar í reiðileysi á velmektardögum Hriflu- Jónasar. Hafi hann sent Gústa á Littla- Hraun þegar nóg rými var í fangelsinu. Líklega fyrir orð hreppstjórans í sveitinni þaðan er Gústi átti uppruna sinn. Víst er að ef angur var í karli lagði hann þannig orð til hreppstjórans.
''Hann stal frá mér kærustuni bölvað beinið'' kvað þá stundum við en ekki lét hann sér ljótari orð um munn fara.

Gústi- Greyskinn var eitt af olnbogabörnum samfélagsins og þótt hann hafi aldrei brotið af sér svo vitað væri, þá var honum komið fyrir á Litla- Hrauni innan um aðra afbrotamenn. Upphaflega til bráðabirgða en dagaði síðan uppi og gerðist mjólkurpóstur á setrinu, en þar var stundaður nokkur búskapur svo fangarnir hefðu eitthvað að vakna til á morgnana. Gústi ók handvagni sínum gegnum þorpið og færði viðskiptavinum ríkisins sína daglegu mjólk hvernig sem viðraði.
Það var ekki sama hvernig menn mættu Gústa. Þegar einhverjum varð á að fara öfugu meginn við hann þá spretti Gústi úr spori til að leiðrétta ruglinginn. Verra var við bílana að eiga. Þó var bót í máli að þeir fóru hægar í þádaga og skröltu hávaðasamir eftir holóttum veginum. Þannig gat Gústi oft séð í tíma hvert stefndi og hlaupið yfir götuna ef svo stóð á, en fyrir kom að hann þurfti að setja kerruna þvert á veginn til að stöðva umferð svo hann kæmist réttu meginn við. Aldrei hlaust þó slys af þessari sérvisku hans því bílstjórar höfðu varann á ef karlinn var frammundan.

Annað sem var sérkennilegt í háttum Gústa var stappið. Stigi hann ekki rétt á einhvern blett á götunni varð hann að stappa eða þjappa staðinn, oft góða stund. Fór hann þá aftur á bak og áfram sitt á hvað þar til rétt var stigið.
Það var undantekning að hann færi inn á heimili fólks. Gamla -Bakaríið var eitt þeirra, en þangað kom hann oftast daglega, stundum kvölds og morgna. Var þá eldhúshurðin opnuð hægt og rólega, Gústi gægðist inn og skaust í hornið sitt við dyrnar og stóð þar þögull. Átti þó til að hlæja kumrandi inn í sjálfan sig og segja síðan afsakandi ''Það var ekkert greyskinnið''. Oftast þáði hann mola kaffi, en meðlæti ekki. Drakk það svart og helst brennheitt og vakti það oft furðu hversu heitt hann gat drukkið kaffið.
Bæri svo við að verið væri að sjóða hrossabjúgu, þá gerði hann sig blíðan í rómi og spurði húsfrúna, ''Ertu að elda grjúpán gæskan?" - "Já viltu bita Gústi minn?" spurði húsfrúin og Gústi þáði.

Við eldhúsborðið settist hann aðeins þegar við tefltum skák, en eftir því sóttist hann á kvöldin. En Gústi setti sínar eigin reglur og eftir þeim urðu allir að fara. Hann lék altaf svörtu mönnunum og fyrstu þrjá leikina í röð en síðan mátti andstæðingurinn leika næstu þrjá. Svo var framhaldið frjálst. En lokaskákina varð hann alltaf að vinna. Undan því varð ekki vikist.
Færi svo að ég ynni af honum drottninguna þá kvað hann jafnan við "Þú stalst frá mér frúnni greyskinnið, það máttirðu ekki gera greyskinnið".

Að taflmennsku lokinni hélt hann heim á "Hælið" eins og hann kallaði það en hét opinberlega Vinnuhælið á Litla- Hrauni. Almenningur kallaði það "Letigarðinn" en öldungarnir í þorpinu kölluðu það jafnan "Fælu".
Þar var upphaflega fjárrétt Bakkamanna og þótti reimt á þeim stað. Síðar var byggð þar þurrabúð af margdæmdum sakamanni. Nokkuð táknrænt fyrir staðinn nú. Sakamaður þessi hafði víða flækst og þótti hirðusamur á eigur annara. Hann dó á Fælu á 45. afmælisdegi sínum 1865.

En aftur að Gústa. Hann átti heimatilbúið ökuskírteini sem hann var hreykinn af og aðeins útvaldir fengu að sjá. Gústi var oft að slæpast úti á Bakka á kvöldin og sníglast í kringum samkomur sem algengar voru í þádaga. Iðuglega var hann að sníkja sér sígarettur. Á seinni árum voru fangarnir farnir að láta hann færa sér fenginn með hótunum og var einn þeirra sínu verstur í þessum efnum. Heljarmenni að burðum en hafði þó ekki pláss fyrir neina góðmennsku þó kroppurinn væri stór.
Hann gekk eitt sinn svo í skrokk á Gústa að stór sá á, en Gústi gerði gott úr öllu og sagði við fólk:
"Það var mér að kenna. Hann fékk ekki nógar sígarettur greyskinnið".

Gústi var kattþrifinn alltaf vel rakaður og þveginn. Fengi hann nýja flík var hann alltaf að dusta hana og strjúka til að vekja athygli okkar. Brosleitur og ánægður með sjálfan sig.
Á helgum dögum bjó hann sig í sparifötin og setti á sig hálsbindi og spókaði sig á Bakkanum.
Þeir sem töldu sig umkomnir að setja sig á háann hest gagnvart Gústa, riðu honum ekki alltaf feitum frá þeirra viðskiptum. Hann kunni að svara fyrir sig. Óvænt og meinlega ef svo bar við.

Í ársbyrjun var 1955 var farið að draga af Gústa. Hann hætti að koma út á Bakka og var sagður lasinn.
Svo rann mánudagurinn 24. janúar upp. Það hafði verið ólund í veðrinu eins og svo oft á þessum árstíma. Að kvöldi þess dags vissu vist fáir út á Bakka hvað Gústa leið. Margir voru uppteknir af því að taka á móti fyrstu fimm Færeyingunum af þeim fjórtán sem koma áttu til að fullmanna fiskibáta Eyrbekkinga. Það var fyrst tveim dögum síðar að fréttist að Gústi hefði dáið á Litla Hrauni þetta kvöld. Útför hans var gerð frá Eyrarbakkakirkju laugardaginn 29.janúar.
Stóðu presthjónin að erfisdrykkju fyrir líkmenn og nákomna. Hann var grafinn í Eyrarbakkakirkjugarði skammt innan sáluhliðs og er leiði hans grasi gróið og lengst af ómerkt.

Volter Antonson skrifaði minningargrein um Gústa í Morgunblaðið 2. febrúar 1955.

Hér lýkur sögunni af kynnum mínum af Gústa, en flest okkar þekkja einhvern sem svipar til Gústa, sem í flestum tilfellum er betur búið að á síðari tímum en þá var, en við skulum ekki gleyma þeim, heldur láta söguna um Gústa- Greyskinn vekja okkur til umhugsunar um velferð þeirra sem minnst mega sín.

Sagan af Gústa Greyskinn er eftir Sigurð Andersen fyrrverandi Símstöðvarstjóra á Eyrarbakka. Gústi hét réttu nafni Ágúst Jónsson og var fæddur 31.ágúst 1896
Magnús Pétursson fangelsisstjóri á Litla Hrauni kostaði erfisdrykkju Gústa heitins. Ágúst Jónsson og var fæddur í Fljótshlíð (Heimild Guðrún Thorarenssen)
Valdimar Árnason kostaði legstein á leiði Gústa.

Efnisorð:

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home