Eyrarbakki - Saga og Atburðir

Eyrarbakki, sögustaður frá landnámi. Gamlar sögur og atburðir sem tengjast þessum stað.

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Eyrarbakki, Iceland
þorskur.JPGboat1359-Álaborg ÁR 25Björgunarsveitin Björg.BMPEyrarbakki RollerEyrarbakki

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Lífið á engjunum eftir Aldamótin 1900

Jón Jakopsson í Einarshöfn segir frá störfum fólks og kennileitum á
engjunum ofan við Eyrarbakka.


Þegar ég var krakki voru kúahagarnir á tveim stöðum. Fyrst á vorin voru kýrnar reknar vestur í Veitu en þegar fór að koma gróður þá var farið með þær upp í Skúmstaðasel. Það var iðulega heill hópur af strákum sem fóru með kýrnar. Oftast einhver af hverjum bæ og ég var ekki hár í loftinu þegar farið var að nota mig til þessháttar brúks. Þá var Sigurjón Jónsson á Skúmstöðum foringinn. Hann var okkar stæðstur og víst var hægt að treista honum fyrir okkur smælingjunum.
Ég man hve erfitt ég átti með að komast yfir flóðin hjá Brandshjalli og Blika en þar urðum við að vaða yfir og þegar vatnið náði upp í mitti fór ég að fljóta upp og þá var betra en ekki að hafa Sigurjón við hliðina á sér. Í Brandshjalli áttum við skýli, þar reis upp nokkuð há hella sem við notuðum fyrir gaflhlið og byggðum svo utanum með smáspítum,torfi og grjóti, einnig áttum við ámáta skýli upp í Skúmstaðarseli.

Svo var það einn veturinn að sandfokið var svo mikið að þúfnafyllir var af sandi í Veitunni og voru kýrnar þá ekki settar á Veituna næstu árin á eftir en eftir þetta hófst Guðmundur á Háeyri handa við að fá byggðan sjógarðinn út að Nesi og var Sveinbjörn búnaðarmálastjóri sem þá var nýkominn úr skóla, fenginn til að áætla um kostnað o.fl. Seinna féll þessi sjógarður en áður var alltaf að koma í hann smá skörð. ( Danski maðurinn sem sá um endurbyggingu hans eftir fallið með sínu “ einkennilega “ lagi stendur þó enn) Sá sjógarður var unnin í akkorði og minnir mig að borgaðar hafi verið 8 kr. á lengdarfaðminn. Unnið var frá því eftir réttir og fram að jólum að minstakosti og stóð hleðslan í nokkur ár að ég held. Fyrst unnu menn í hópum en síðar held ég að allir hafi unnið sem einn og grjótið var dregið að hvar sem til þess náðist og þá voru rifnir Brandshjallar og fleira fór þá forgörðum.

Þegar við vorum við heyskapinn út á kaldaðarnesengjum fórum við stundum í ána með selanót. Það kom fyrir að menn fengu nokkra seli í hlut eftir daginn en algengast var það svona 1-1 ½ selur, en helst var farið í sel á sunnudögum þegar menn höfðu ekki annað við að vera. Skinnið var hirt en spikið brætt og notað fyrir bræðing eins og hronafeiti með því að bræða tólg í það. Kópaketið þótti sæmilegt til matar af þeim sem vanist höfðu upp á það. Sjálfum þótti mér það ekki sem verst, en ketið af gömlu selunum þótti ekki mannamatur, bæði þurt og hart og svart á að líta en samt var það saltað og við geimdum það í skemmuni hér við bæinn til vetrarins og gáfum það hrossunum hér á hlaðinu á vetrin og hvort þeim þótti það gott eða hvort það var af sultinum en það var brimsaltað. Þá skófu hrossin hverja ögn af beinunum.
Ég hafði altaf gaman að sjá til þeirra þegar þau stóðu með aðra löppina á bitanum og slitu úr honum með kjaftinum.

Halla sáluga í Hallskoti sagði mér að bændurnir úr Flógaflshverfi hafi áður fyrr sameinast um selveiðina en hún lagðist niður þaðan um aldamótin. Það var alltaf erfitt að fara um engjarnar vegna bleytu. Ég tala nú ekki um áður en farið var að grafa þar framræsluskurðina. Annars veiddist mest af sel frá Arnarbælishverfinu og ég man eftir því að eitt sumarið er við vorum við heyskap útá Kaldaðarnesbökkum. Þá voru Arnbælingar með nót út við Eyri sem þá var byrjuð að gróa upp og var beint vestanvið túnið þar, annars var nú venjan að veiða selinn á vorinn.

Sjóbirtingurinn kemur í ána oftast um lokin eða fyrr og það vissi ég að Sigfús í Eyvakoti sem bjó um tíma í Nesi, hafði saltað silung í tunnu fyrir lokin eitt vorið auk þess sem hann seldi nýtt út á Bakka.
Halldór (Jónsson) sem bjó um tíma í Kirkjubæ og var bróðir Ólafs Jónsonar á Búðarstíg reyndi fyrstur manna að veiða lax (og silung) í net hér í vesturfjörunni. Hann lagði fyrst í lónið sem er við fjörusandinn undan Sundvörðunum en síðan færði hann síg vestar á Hellurnar. Hann veiddi þarna all sæmilega. Síðan fóru aðrir að reyna þarna líka og færðu sig smátt og smátt vestar og út á Nesfjörur.

Tómas í Garðbæ kunni að meta selinn. Hann komst víst uppá það þegar hann bjó í Kálfhaga og þaðan kom hann í Prestshúsið. Hann fékk stundum sel úr Kaldaðarneshverfinu og svona var um fleirri. Mér er ekki kunnugt um hvort aðrir stundi nú kópaveiði í ánni aðrir en þeir Sæmundur á Sandi og Magnús í Laufási en þeir hafa fengið þetta 30-40 kópa á vori en tvisvar held ég að veiðin hafi farið niður í 20 stykki.

Sigurður Sýslumaður mun hafa talið gömlu landamörkin (þ.e. Skarðið, áður Ósinn) hafa meira gildi en en þau seinni frá 1886 en með honum mun hafa hallað á Kaldaðarnes. Hélt hann sig fast við gömlu mörkin á eyjunum og alla króka á þeim þar. Einnig vildi hann láta grafa landamerkjaskurðinn yfir Sökkva, með stefnuna með stefnuna á Skarðið, en Þórðarkotsmenn komu í veg fyrir það. Að öðru leiti var haldinn hefð gömlu landamarkanna. Svo sem slægjuítak Kálfhagans í Kjálka og eignarhlutur í kaldaðarnesengjum. Sigurður lét ekki grafa upp gamla landamerkjaskurðinn í opnunni, (Rauðopnu)en lét gera framræsluskurð neðst úr henni. (og sjálfsagt með leifi eigenda Flóagaflsins en að ráði Sveinbjörns Ólafsonar.) Virðist allt benda til þess að Sýslumaður hafi viljað koma á aftur hinum gömlu hefðbundnu landamerkjum. Þó má ekki gleima að stefna skurðarinns yfir Sökkva er sú sama og austurmörk “Útgarðsins” þ.e.a.s. hafi skurðurinn sem er í framhaldi af honum upp í kaldaðarnesengjar verið grafinn í réttum mörkum hjáleiganna, Kálfhaga og Hreiðurborgar.

Haustið 1901 fór ég með pabba upp á Kaldaðarnesbakka og var hann það uppgróinn að komist var yfir hann án brúar enda grær allt svo fljótt upp þarna af störinni. Þá var kominn skurður neðst í opnunni og var hann brúaður. Hvort Sveinbjörn Ólafson lét grafa hann veit ég ekki en finnst það ekki ótrúlegt. Hann var búfræðingur en annars skrifari sýslumanns og bróðir hans sá um framræslu og mælingar. Það var nú talið að með framræslu í engjunum mundi aðstaðan batna til heyskapar og hún hefur gert það einnig átti að fást meira af þeim en nú hefur enginn áhuga á að nýta engjarnar.

En eftir allan þennan skurðgröft er nú svo komið að Kaldaðarnesengjar eru hættar að spretta. Það voru ekki lítil hey sem fengust þarna áður fyrr og nutu Bakkamenn ekki síst góðs af. Damminn var þó aldrei leigður. Hann var alltaf nytjaður frá Kaldaðarnesi.
Við fengum einu sinni að slá Kaldaðarneseyjar. Þær höfðu þá ekki verið nytjaðar nema til eggjatöku. Þar var svo mikill mosinn að maður sökk í ökla og vel spratt undan fuglinum og ekki voru vandræðin við að þurka heyið. En það var náttúrulega erfitt að heyja þarna og koma öllu í land og það var ekki lítið sem systurnar báru á sér að bátnum.

Flóagaflseyjuna sló lengi Tómas heitinn í Garðbæ og reiddi heyjið á hestum niður ána allt út í Gamla-Nes. Það væri víst ekki hægt núna eins og áin er orðin. Þegar Jakobína systir var í vinnumensku í Kaldaðarnesi þá var vinnufólkið látið hirða egg úr eyjunum. Flóagaflsey líka en þeim var sagt af Sýslumanni að halda eggjunum úr Flóagaflsey alveg fráskyldum en þau voru svo send niður á Bakka til oddvitans þar. Skamt frá Flóagaflsey var smáeyja. Löng nokkuð en ekki breiðari en kálgarðurinn hér fyrir framan. Hún var kölluð Kríueyja því þar verpti svo mikið af kríu og flaug allt gerið gargandi upp ef nærri var komið. Þar fyrir utan var svo hólmi þó nokkuð minni en Flóagaflsey og kallaðist Lambey en þar höfðu Kaldaðarnesbændur lömbin áður fyrr. Hægt var að vaða á milli þessara eyja yfir smá ála sem voru kallaðir “Lækir”. Halla sáluga og þau systkyn fóru gjarnan út í Flóagaflsey til eggjatöku þegar þaug voru ung, það sagði Halla mér. Óðu þaug út frá Stekksós og síðan upp ána og út í eggjavirkin. Það var oft seinniparts sumars þegar norðanátt og þurkar höfðu staðið að þá minkaði svo í áni að Þórðarkotsmenn komust út í Flóagaflsey frá Álftartanga og komu að eyni neðanveðri.
Farið var í eyjarnar vikulega til eggja en alltaf var skilið eitt egg eftir í hverju hreiðri og var það merkt svo það þekktist úr.


Engjarnar frá Þórðarkoti voru kallaðar Þórðakotshólmur og er nú í eigu Hreppsins, því að skipti voru gerð á landi milli Þórðarkots og Hreppsins rétt eftir stríðslokin (1945) og var ég við þá úttekt sem þar fór fram. Í staðinn fyrir hólminn fékk Þórðarkot land við Grafarkeldu, innan hreppamarka Eyrarbakka. En allt svæðið neðan og austan við Grafarkeldu innan Sandvíkurmarka og út að Blakktjörnum fylgdi Kaldaðarneskirkju en hvernig það land komst undir Kaldaðarnes veit ég ekki en kanski það sé vegna hefðar. Jón í Norðurkoti lenti í Sigurði Sýslumanni út af þessu þar. Jón var óragur við höfðingja og ég tala nú ekki um ef vín var í honum. Jón vildi meina eins og kanski fleiri að kirkjan á Eyrarbakka og Stokkseyri ættu mýrina þar sem eignir Kaldaðarneskirkju skiptust á milli þeirra þegar kirkjan var aflögð í Kaldaðarnesi.


Áður fyrr var Syðri-Einbúinn hornmark jarðanna, minstakosti alla búskapartíð Þorleifs gamla á Háeyri og þegar Guðmundur tengdasonur hans tók við þá byrjaði hann að grafa markaskurð milli Háeyrar og Skúmstaða og var kominn langleiðina á Syðri-Einbúann- ég hugsa að sjá megi þann skurð enn- en þá var hann stoppaður af. Líklega af eigendum Skúmstaða en ekki veit ég þó það en þetta varð til þess að áreiðin var gerð á landamerkin milli jarðanna á Eyrarbakka og Sandvíkurhreppi fyrir síðustu aldamót.(1900)

Sýslumaðurinn (Sigurður Ólafson) leigði Guðmundi á Háeyri, Kaldaðarnesmýrina.
Eitt sinn skarst í odda milli Guðmundar og Hannesar í Stóru-Sandvík. Guðmundur var eitthvað drukkinn og lá víst við áflogum. Eftir það fór Guðmundur í mál við Stóru-Sandvíkurbóndann og vann þá til Kaldaðarnes eitthvað af landi. Nú! Sýslumaður stóð náttúrulega á bakvið þetta og Guðmundur verið í hanns umboði, því sjálfur átti hann bágt með að standa í málastappi við nágrana sína-sjálfur Sýslumaðurinn.


Þó að núna liti enginn við engjunum þá var það svo áðurfyrr að varla fannst lófastór blettur sem var ósleginn. Ef til náðist þá óðu karlarnir með orfin og konurnar með hrífurnar upp í mitt læri í flóðin. Um tún eins og í Hallskoti kærði sig enginn þá, enda var þar allt upp nagað og út sparkað af hrossum og sauðum. Túnið þar fyrir utan var svo þýft að ekkert gekk við slátt. Það var svo uppnagað kringum þúfurnar á vorin að kollarnir á þúfunum sátu eins og hattar á staur og hölluðust sitt á hvað svo þrautlaust var að sparka þeim um koll.
Það sagði hún Guðný heitin í Hallskoti að kýrnar hefðu mjólkað betur af útheyinu en því sem kom af túninu.
Guðfinna heitin í Hallskoti, móðir Einars og Höllu kærði sig ekki um peningaseðla. Einu sinni kom Jón frá Svarfhóli í Flóa (faðir Sigurðar í Steinsbæ) til að kaupa af henni kú og ætlaði að borga henni með peningaseðlum en við þeim vildi hún ekki líta og sagðist ekki láta kúna sína fyrir bréfsnifsi, varð þá Jón að fara niður á Bakka og skipta seðlinum fyrir silfur svo hann gæti fengið kúna.

Um veiðimörkin í áni það ég veit að mörkin milli Kaldaðarnes og Arnarbælis lágu nokkuð utan við efstu Kaldaðarneseyjuna, -en úrþví að þú varsta að tala um “Álftarhólma” áðan- þá gæti hún hafa verið kölluð það þó að mér sé ekki kunnugt um það. Einhvern tíman var mér sagt það að þegar ferjan lagðist niður í Kaldaðarnesi, þá hefði hún fyrst verið færð að Hrauni í Ölfusi en vegna vaxandi sandágangs þar hefði tekið af alla haga fyrir hesta ferðamanna og hefði ferjan því verið flutt austur yfir ána að Nesi.( einnig vildu Hraunsmenn losna við ferjuna vegna ágangs ferðamanna í slægjur Hraunsmanna)

Gamli markaskurðurinn alla leið austur úr Blakktjörnum eða Smalaskála gróf Árni í þórðarkoti, faðir Eiríks, föður Ármanns og Guðmundar. Þar voru þá tómar keldur eftir undir löngum landamerkjum svo nærri má geta hvernig hefur verið að grafa þetta í eginlegri samfeldri vatnsrás. Ég man nú ekki hvort það var veturinn eftir skuðgröftinn eða þann næsta, en þá gerði svo mikið áhlaup og kom í ána með svo miklu jakareki að skurðinn hálf fyllti og rann aldrei almennilega úr honum síðan. Vega þess að höft mynduðust sem síðan greru upp.
Einu sinni kom áin ofanað með girðingar úr kaldaðarneshverfinu og á girðingar frá okkur svo allt snerist saman og eiðilagðist. Af þessum miklu flóðum var áveitan (Flóaáveitan) aldrei látin ná til engjanna, því það þótti ekki vegur.

Einu sinni áttum við 90 hesta (spildu) sem við vorum búin að sáta og átti að fara að reiða heim, en þó átti fyrst að flytja út í Kaldaðarnes, leiguna fyrir engið, en það var þriðji hver kapall fullþunga sem skila átti við hlöðudyr. Nú! Þá komu boð frá Kaldaðarnesi um það að þeir vildu láta þurka heyið betur áður en það yrði flutt að Kaldaðarnesi. En næstu daga var þerri lítið og hey ekki breitt og gátum við því flutt allt okkar hey heim áður en nægur þerrir kom til að fullþurka heyið sem fara átti í Kaldaðarnes,- en hvað það hey kallaðist sem gekk í leiguna man ég ekki.


Menn töldu nú ekki sporin eftir sér í þádaga þó menn gengu ekki berfættir eins og hann Gísli Gestsson, bróðir hennar Ólöfar í Túni. Ég man hvað mér sem unglingi varð starsýnt á hann þegar hann var að koma utan úr Höfn gangandi allan sandinn berfættur. (Gísli var stór og gjörfilegur)

Ætli Dammurinn hafi ekki gefið afsér um 100 hesta af stararheyi. Við vorum með stikki fyrir ofan hann og austan. Ofan við okkur voru Steinskots menn og ekki langt frá var Nilsen með stórt stykki. Hefðu ekki verið engjalöndin veit ég ekki hvernig búskap Bakkamanna hefði reitt af, þó að þá hafi ekki verið ætlað eins mikið á hest og kind og nú er, því þá var treyst á fjörubeitina. Farið var með féð í fjöruna í bítið á morgnana og stundum setið yfir því alla nóttina eða þar til fallið var í sand. Þá var ekki lengur hætta á að féð færi út í skerin og flæddi. Sérstaklega var austurfjaran varasöm og eins við Skúmstaðaós. Þá stundu (stóðu) gamlar konur á stein við ósinn og vörnuðu fénu fram yfir og man ég að stundum var mamma sáluga þar.
Einu sinni náðust hey ekki úr Dammi heim fyrir óþurki um haustið og stóðu úti á bökkum allann veturinn. Þá vildi svo til að Brynjólfur í Kálfhaga varð heylaus á útmánuðum. Kom hann þá til Sigurðar sýslumanns og spurði hvort hann mætti fá af heyinu sem úti á bökkunum var og stóð ekki á því.

Við heyjuðum 24 hesta af neðsta hólmanum ( Lambey) í Kaldaðaneseyjum og ætlunin var að reiða það á átta hestum fram ána að Flóagaflsey og sömu leið og Tómas í Garðbæ hafði farið með hey úr Flóagaflsey. En þegar við vorum kominn út í ósinn á milli eyjanna fóru hrossin að sökkva og allt stóð fast um tíma, en loks náðum við að baslast til baka. Síðan létum við hrossin troða leiðina laus eins og Tómas gerði og eftir það gekk þetta vel.

Einu sinni hrapaði herflugvél í Flóagaflsmýrina. Herinn (breska hernámsliðið í Kaldaðarnesi 1941) var svo að smá tína úr henni tækin en síðan var hún dregin upp í Kaldaðarnes. Okkur þótti það ekki gott þegar við vorum rekin heim af engjunum í besta veðri og urðum að tapa úr heilum og hálfum dögum þegar þeir voru að skjóta á engjunum. Þá kom skúrinn okkar í Hallskoti sér vel og var þá oft fjölmennt meðan fólk var að bíða eftir að komast á engjarnar.
Áður en herinn kom var mikill fugl á engjunum og minkur var þá ekki að neinu ráði en minkurinn kom úr minkabúi sem Gunnar á Selalæk hafði á Selfossi og voru alltaf að smá tínast út en með hernum hvarf allur fugl úr engjunum. Þeir voru um allar engjar og á bátum á ánni og skutu á allan fugl stóra sem smáa. Selinn sem þeir ekki drápu, flæmdu þeir út í Selvog. Fuglalífið hefur aldrei náð sér eftir hersetuna og nú sér minkurinn um að hann fjölgi sér ekki.

Þegar herinn var í Kaldaðarnesi, kom eitt sinn svo mikið flóð í Ölfusá að hún rann um herbúðirnar og sagt var að nokkrir hermenn hefðu druknað þegar þeir óðu út í flauminn. Vorið eftir þegar við vorum að stífla út í engjum fundum við líkið af einum utast á engjunum. Skömmu síðar fundum við annað lík á bakkanum vestan við Stakkholtsósinn. En hvort það var af hermanni eða Íslendingi man ég ekki.

“Aular” voru stórþorskarnir kallaðir og komu oft tveir venjulegur á móti einum slíkum við skipti.(aflaskipti á hlut.) Kirk kvaðst hvergi hafa séð eins góð hafnarskilyrði og á Eyrarbakka, en þegar það fréttist suður að hann væri farinn að mæla fyrir höfn hér, þá komu menn í hópum frá Reykjavík til að fá hann ofan af þessu. Eins var það að hann vildi fara öðruvísi að með byggingu hafnar í þorlákshöfn. Hafa hana miklu stærri með því að byggja garðinn út frá Ölver.


Við vorum búinn að slá um 30 hesta stykki í eyjunum (Flóagaflseyjum) og ætluðum út á Kaldaðarnesbakka en þá var svo mikil bleitan þar, því þetta var í rigningartíð.
Þá fór pabbi til sýslumanns og bað um eyjarnar ( Kaldaðarneseyjar) sem við fengum. Þar var svo mikill reyr (ilmreyr) að ilmurinn var með lestinni alla leið heim og eins var það úr stálinu (ljáinum) allan veturinn. Þá var líka nokkuð af flækjugrasi í enginu en þó ekkert á móti því sem var uppá bökkunum. Það þótti ekki afleitt að komast í svoleiðis stykki. Nú er flækjugrasið, sem við kölluðum svo að breiða sig út hérna meðfram sjógarðinum og vinda sig upp á gaddavírsgirðingar í Sandgræðslunni. Lambey var stór eyja og lá efst. Hún var óskipt frá Kaldaðarnesi hafi sýslumaður sagt rétt frá, þá kom Kríuey þvert á milli hennar og Flóagaflseyjar, annars var þetta alltaf að breytast á þessum árum sem við vorum þar og frá því sem var í gamallamanna tíð.


Á gömlu hreppamörkunum voru áður fyrr flóð sem hreppslandsskurður var grafinn á milli og ég man hvað mér fannst það undarlegt að skorið var sitt á hvað á milli þeirra (flóðanna) að ofanverðu og neðan en ekki úr þeim miðjum eins og ætla mætti að hægt hefði verið en svona lágu víst mörkin.


Ég man eftir því þegar Jón í Koti (Norðurkoti) var að reina að koma kogaranum ofan í sig -en það gerði hann þegar hann hafði ekki annað. Hann byrjaði þó jafnan á brennivíni. Þá var hann að bera stútinn upp að munni sér og sagði “ það skal! Það skal!” en þegar hann fann lyktina þá hrillti hann sig og lagði flöskuna frá sér, en tók hana svo strax aftur og svona gekk þetta þangað til að hann dreif kogarann í sig. Jón var alltaf á sífeldu flakki þegar vín var í honum og ekki vildu allir verða á vegi hans þá.
Jón átti það til þegar hann var drukkinn að vera á rölti útivið um nætur og stansaði hann þá oft utan við glugga þar sem sofið var inni og söng með miklum hljóðum.


Gudda á Skúmstöðum beitti stundum hjá Steini í Steinsbæ þegar ég var þar beitustrákur. Andrés reri þá úr Höfninni (Þorlákshöfn). Fyrir beitningun fékk Gudda nýmeti sem kom sér vel fyrir heimilið og þó hún væri lág í loftinu þá var hún snör að beita. Einhverjar nábúakreddur voru á milli þeirra Andrésarbarna og Ebenesars gullsmiðs. Ebenes kallaði hana “Kríuna” og stundum spurði hann.” Hefurðu séð lítinn fugl með svartan haus, sem segir krí!, krí!,?” og meinti þá Guddu sem fékk þá viðurnefnið Gudda-Kría.


Fyrir framan hlaðna garðinn sem er fyrir framan Húsið –þ.e. svæðið frá Garðshlöðunni og vestur að kirkju, (Eyrarbakkakirkja) var glímuvöllur vertíðarsjómanna og fleiri en einnig voru þar aðrir leikir svo sem sláboltaleikir.
Var þarna oft mikið líf og fjör sérstaklega þegar landlegur voru og veður blítt.
Þeir Magnús í Sölkutóft og Guðmundur í Eymu (faðir Ingibjargar í Gunnarshúsi)- sumir segja Magnús og Jón Sigurðsson í Steinsbæ-hlóðu Garðshlöðuna og báru allt grjótið neðan úr Garðklettum. Þeir byrjuðu um vorið og voru allt sumarið fram á haust. Seinna gerði Guðmundur í Heklu votheysþró í parti af hlöðunni og stórskemdi vegginn. Annars voru þeir rómaðir af öllum sem sáu þá fyrir hvað lystilega þeir voru hlaðnir.
Guðmundur í Heklu lét skíra Húsið “Garð” en áður var það alltaf kallað Kaupmannshúsið. Eins lét hann breita nafninu á Hjörtþórshúsi í “Hof” þegar hann bjó þar. Hjörtþór var verzlunarmaður og var víst nokkuð drykkfeldur.


Þegar Bergur í Kálfholti hætti að búa fór hann til uppeldissystur sinnar Helgu í Þórðarkoti og manns hennar Eiríks (Árnasonar) bónda þar. Kom þeim Bergi og Eiriki illa saman. Eiríkur vildi öllu ráða og varð allt að lúta hans vilja. Það var þó undantekning með Guðmund son hans sem var í miklu uppáhaldi. Kom þar að Bergur hélt ekki út og fór til Brynjólfs sem þá var farinn að búa í Kálfholti. Fannst karli að þar ætti hann inni sem f.v. bóndi þar og hafði Brynjólfur ekki brjóst í sér til að úthýsa honum. Þegar Bergur fór svo niður að Þórðarkoti til að sækja sitt dót, vildi Eiríkur litlu sleppa og upphófst mikið rifrildi. Seinast var rifist út af kvörn sem Bergur hafði smíðað í Þórðarkotsvistinni en Eiríkur útvegað honum timbur í umgjörð hennar. Að lokum leiðist Bergi þófið og sagði við Eirík, “ Hafðu þá helvítis spíturnar og moldaðu með andskotans lýginni í þér” (Bergur hafði hinnsvegar kvarnasteinana.)

Bergur var smiður góður og steypti jafnan kopar fyrir Odd (Oddson) gullsmið á Eyrarbakka. Eitt sinn er Oddur var að borga honum sá Bergur í buddu hans og sagði “ Mikið áttu af peningum Oddur!” – þú séð nú minst af þeim hérna! Sagði Oddur þá, “þú segðir eitthvað ef þú sæir það sem heima er!” þá sagði Bergur “ Og þú ert á helvítis hausnum samt!”.

Eiríkur í Þórðarkoti var mikil óhemja. Ef þannig viðraði að taka varð fé inn fyrir jól, þá lagðist hann jafnan í rúmið í hugsíki. Þegar Kaldaðarnesland var skorið eða girt frá einhverntímann, þá varð Eiríkur alveg æfur og á endum þorði sýslumaður ekki annað en láta hann fá afnot af Melamýri, en án endurgjalds. Þar höfðu skepnur Eiríks verið áður án nokkurs leyfis. Sagt er að hann (Eiríkur) hafi öllu ráðið eftir að Ármann fór að búa og eftir að þeir fóru að búa á Eyrarbakka (Ármann og Guðmundur) varð oft að sækja Guðmund til að “sansa” karlinn er hann var hvað verstur.
Eitt sinn var Ármann að slátra fé frá þeim feðgum. Þá kom sá gamli þar að og sagði “Ja, það er sko vert að skera þetta litla sem maður á!”
Kappsmaður var Eiríkur mikill. Eitt sinn eftir vætusumar var Sökkvi ósleginn (en þar spratt gulstör) er Ásmundur fór á fjöll. Kom þá norðann þurkur og fór þá Eiríkur gangandi með fleirum og sló Sökkva og fengust þar 16 hestar af heyi. Erfitt var að ná heyinu upp úr Sökkva og varð að bregða um það kaðli og draga með hestum upp úr feninu.

Rauðabúð. Í henni var tólgin geymd ásamt ýmsu öðru og var sagt að eftir flóðið (1799) hafi tólgarskyldirnir verið dreifðar um alla mýrina milli Flóagafls og Stokkseyrarsels. Þar sem sjógarðurinn er nú ofan Sundvarðanna var áður mikið hellugrjót sem talið var sumpart úr Einarsahafnarbænum og sumpart hafði sjórinn boið þangað upp framan af hellunum. Kampur þessi náði að Markaláginni, en austan við hana kom annar kampur. Síðast þegar sundvörðurnar féllu (1925) var undirstaðan ein eftir en grjótið bar sjórinn um nálægar fjörur og upp að sjógarði.Þuríður var hjá Gísla í Einarshöfn mági sínum og systur (Ragnheiði) –þær voru föðursystur Gísla á Reykjum- Þuríður sagði að þegar hún var ung hafi verið ein stór grasflöt þar sem fiskhúsin Fiskiver og Fiskstöðin (Búðarstígur 24) standa núna að þar gátu allir úr Einarshafnarhverfinu þurkað söl sína í einu , en þessi flöt var það seinasta sem eftir var af Stararenginu sem var á milli Skúmstaða og Nes, (Refstokks) áður fyrr. Hún var alveg horfin þegar ég man fyrst eftir mér.
-það er von að ég sé eins og ég er sem varð að læra kverið hjá honum Þorsteini á Kiðabergi.


Gísli mágur Þuríðar var lengi fram í Þorlákshöfn svo sem sjá má í endurminningum Jóns á Hlíðarenda sem Sigurður þorsteinsson hafði í Þorlákshöfn. Ég fór að hænast að Gísla strax og ég fór að getað staulast um. Hann hefur víst gefið mér sykur, ég veit það ekki, eitthvað var það. Hann lág þá orðið alveg rúmfastur og ég stytti honum eitthvað stundir. Hann gaf mér gimbur. Ég hef víst verið fárra ára þá, því þegar ég var 5 ára hafði hún eignast nokkur lömb. Þar á meðal tvo sauði og man ég að þeir voru golsóttir. Um haustið komu þeir með fénu okkar og voru hafðir með öðru fé við skemmuna fyrir norðan bæinn. Ég man að ég var að skoða þá þegar ég var leiddur fram fyrir bæ og hafður þar um stund, en þegar ég fór aftur norðurfyrir var búið að skera þá báða.

Þuríði gömlu þótti gaman að fá okkur krakkana til að spila við sig þó þröngt væri inni hjá henni, þá dreif hún rokkin á rúmið upp fyrir sig en lét okkur sitja á þangbúnka (sem notaður var til eldunar og einhver maður kom með á bakinu austan frá Stokkseyri.) en þangið geimdi hún aftan við rúmið sitt. Það voru tvennar hlóðir í eldhúsinu og hafði hún aðrar, því stundum vildi hún elda eitthvað sem henni áskotnaðist. Hvort sem það var nú nýmeti eða annað. Þarna inni var varla nema tveggja rúma pláss. Í hinu rúminu var gömul kona sem leigði út frá sér en veit það þó ekki fyrir víst.

Skýringar:

Flóagaflsrétt var þar sem garðlöndin frá Sæmundi , Ármanni og fl. Fyrir austan Flóagafl.
Upphaflega var Hreppamarkaskurður 8 feta breiður. Þorsteinn sá sem Þorsteinsskurð gróf var að Norðan og tók að sér að grafa skurðinn í akkorði. Allt var grafið í akkorði í þádaga. Fyrstu skurðirnir sem grafnir voru í engjunum voru grafnir af Sveinbyrni Ólafssyni en áður voru þar ýmsar vatnsrásir af náttúrunnar hendi. Einarshöfn hin gamla stóð þar sem nú eru sunmerkin og hundrað föðmum austurundan stóðu Rauðubúðir.

Flest öll örnefni sem hér koma fyrir má finna í Örnefnaskrá Guðmundar Þórarinssonar og Sigurðar Andersen, sem Sjóminjasafnið á Eyrarbakka gaf út 1995.

Eftirmáli:
Jón Jakopsson “Jón Jak” í Einarshöfn lagði til þessa frásögn sem Sigurður Andersen skrifaði upp
(ca 1975) og er þetta ein af mörgum sögum sem Sigurður safnaði um atburði á Eyrarbakka fyrr á tíð.
Mörg mannanöfnin koma einnig fyrir í öðrum sögnum í safni Sigurðar. Jón Jak og Bína voru mikið öðlingsfólk og lifðu af sjálfsþurftarbúskap alla sína tíð. þau áttu lengst af kýr,kindur og hesta, hænsni og góða kálgarða. þau héldu fast í verklag og hefð sem tíðkaðist fyrr á tímum. Þau tileinkuðu sér ekki vélar og tæki við sín störf og er mér sérstaklega minnisstætt, að eini heyvagninn sem ég hef séð gerðan fyrir dráttarhesta var í eigu Jóns Jak. Einnig er mér minnisstætt að hestar Jóns völsuðu oftast lausir um hverfið og bitu þar sem strá var að finna í köntum og vegbúnum, en komust einnig upp á lag með að velta úr ruslatunnum og hirða góðgætið sem þar var að finna
.Á unglíngsárum beitti Jón hjá Steini-Skipasmið upp á nýmeti ásamt Guddu á Skúmstöðum, seinna varð hann beitustrákur hjá Magnúsi í Húsinu og fór að róa hjá honum á 17. árinu. þá var róið með tvær lóðir og var önnur lögð að kvöldinu og látin liggja yfir nóttina og fiskaðist altaf betur á kvöldlóðið. Hin var lögð að morgni. Þegar lokið var að leggja morgunlóðið var farið í kvöldlóðið og var mest þorskur þar á en ýsublendnara á morgunlóðinu sem svo var dregin í seinniróðrinum. Á vertíðinni mátti ekki nota “vélabeitu” eins og fjörumaðk heldur var notuð “ljósabeita” þ.e. hrogn og innifli fisksins. Síldin var spöruð og varð ein síld að duga á hvern bala. Á morgnana mátti ekki róa fyrr en “Sundabjart” var orðið. Ekki mátti fara fyrr en flaggað var á Háeyrarhúsum en um það sá einhver formaðurinn og sendi þá einhvern strákinn til að venda upp flaggið sem var dökkt að lit en stundum var blásið í lúður.
Magnús í Húsinu hafði lendingu vestan við þvottaklett.

Efnisorð: ,

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home