Báran á Eyrarbakka í 100 ár
Sjómannafélagið Báran á Eyrarbakka var stofnað 14. febrúar 1903 og var stofnfundurinn haldinn í Bræðrafélagshúsi svokölluðu sem var vöruskemma sunnan Háeyri.
Forgöngumaður að stofnun félagsins var Sigurður Eiríksson- Regluboði. Tildrög að stofnun félagsins var sú, að þá um haustið hafði samist svo um með þeim Ottó N. Þorlákssyni og Sigurði Regluboða að Sigurður gengist fyrir stofnun Bárufélaga á Suðurlandi í þágu stórstúkunnar gegn því að Ottó stofnaði sjómannastúku í Reykjavík.
Það lá vel við að Sigurður hefðist handa um þetta í sinni heimabyggð á Eyrarbakka, enda var hann þar kunnugastur og vissi gjörla til hverra væri helst að leita í þessu sambandi.
Kom svo til þess að undirbúnings stofnfundur var haldinn í Bræðrafélagshúsi í desember 1902 gengu 12 menn í félagið sem stofnendur. Stjórn var kosin og til formensku valdist Guðni Jónson formaður frá Einarshöfn. Inntökugjald var ákveðið 25 aurar en árgjald 50 aurar. Var síðan ákveðið að halda framhalds stofnfund síðar til að gefa fleiri mönnum færi á að gerast stofnfélagar. Sá fundur var síðan haldin 14, febrúar 1903 og miðast stofnun félagsins við þann dag.
Fyrsti formaður Bárunnar- Guðni Jónsson.
Guðni Jónsson var fæddur í Steinskoti á Eyrarbakka 5. júní 1867 og voru foreldrar hans Jón Sigurðsson bóndi í Steinskoti og Ingibjörg Guðnadóttir frá Þverspyrnu í Ytri hrepp.
Kona Guðna hét Sigríður Vilhjálmsdóttir ættuð frá Rángárvöllum, þau áttu einn son sem dó ungur og ókvæntur.
Guðni var stór vexti og mikill á velli. Hann var sagður sterkur með eindæmum á sínum yngri árum og hlaut þá viðurnefnið Guðni- Sterki. Ein sagan segir að hann hafi oft lyft fullri lagertunnu upp á brjóst sér og síðan brugðið neglunni úr með tönnunum og drukkið af eins og um hálf anker væri að ræða. Margir sáu hann einnig tæma fulla brennivínsflösku í einum teig.
Guðni var hinsvegar stilltur mjög og gæfur svo eftirtekt vakti. Hann var lengi vinnumaður hjá Andrési Ásgrímssyni en stundaði einnig sjósókn og var formaður á róðrabát og þótti sókndjarfur og aflasæll.
En Guðni varð síðar meðal bestu Templara og fljótlega eftir það var hann kjörinn formaður verkamannafélagsins Bárunnar. Það átti hinsvegar ekki fyrir Guðna að liggja að verða gamall maður. Hann veiktist skyndilega er hann var á leið til Þorlákshafnar á svokölluðu ”Leiði” þ.e. að fara í sjóbúð með færi og annan búnað til sjósókna og lést hann skömmu síðar aðeins 45 ára gamall þann 26.febrúar 1912.
Eftirfarandi kveðjuljóð samdi Brynjúlfur Jónsson frá Minna- Núpi fyrir hönd Verkamannafélagsins árið 1912.
Kveðja Verkamannafélagsins.
Hin forna saga
Var söm alla daga,
Og ennþá ný og ný,
Að ýmsir bana bíða,
Í blóma lífsins lýða,
Og manndómsstörfum miðjum í,
Vort félag má þess minnast,
Og mikið um það finnast,
Við þetta þunga spor,
Er hér þig kveðja hljótum,
Á hinstu vegamótum,
Starfsbróðir kær og vinur vor,
Þín sakna mjög við megum.
Af meðbræðrum vér eigum,
Of fáa, sem þér,
Jafnsnjallir metast megi,
Svo missi þinn upp vegi.
Sá skaði brátt ei bættur er,
Þín hrein og hógvær lundin,
Var hyggni og gætni bundinn,
Og ötull viljinn var.
Ei tál var þér að treysta,
Frá trúar helgum neista,
Á ævistarf þitt birtu bar.
Nú fer þú fyrr en varði,
Nú fylgir þér úr garði
Vort sorgblítt þakkarþel,
Nú ferðu í félag æðra,
Til frelsaðra himinbræðra,
Þar finnumst aftur.
Farðu vel.
Brynjúlfur Jónsson.
Árið 1904 skoraði félagið á hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps að hún léti sjá um að baujunni á Rifsósi yrði haldið við á kostnað hreppsjóðs og í ársbyrjun 1905 samþykkti hreppsnefndin að verða við áskorun félagsins að öðru leiti en því að útgerðamenn skyldu greiða þau vinnulaun sem af þessu leiddi.
Árið 1906 boðaði félagið til fundar í Barnaskólahúsinu, þar sem fyrir var tekið tilboð Lefolii- verslunar um hleðslu á sjógarði fyrir Skúmstaða og Einarshafnalandi, þar sem verkamenn skyldu fá 20kr fyrir hvern lengdarfaðm í sjógarðinum uppkomnum, miðað við að grjót til hleðslunnar væri komið á staðinn. Þessi tillaga var samþykkt einum rómi, enda var Guðni þessu eindregið fylgjandi, þar sem með framkvæmdinni var um tíma ráðin bót á því slæma atvinnuástandi sem landlægt var í þorpinu stórann hluta vetrar. Sjógarðshleðslan stóð nokkuð á þriðja ár og náði þá allt vestur að Ölfusárósum.
Áður hafði verið hlaðinn garður fyrir Skúmstaðarlandi á árunum 1830-1840 og stóð Lefolii- verslunin einnig fyrir þeirri framkvæmd, en oft hlupu skörð í þessa garða í stórsjóum og þurftu ætíð viðhalds við
Aðalhleðslumenn voru í það sinn, þeir Magnús frá Sölkutóft, faðir Hús- Manga og Jón Sigurðsson í Steinskoti, eða þeir sömu og hlóðu veggi Garðslöðunar á sínum tíma, en þar standa nú tóftirnar einar eftir þegar þetta er skrifað, því hlöðuþakið fauk í veðrinu 1990. Hlaðan stóð vestan við Garðhús alveg við götuna.
Árið 1905 hafði félagið gert tilraun með verkamannasamning, er þeir nefndu svo við verslanirnar, en ekki náðu þó öll atriði hans fram að ganga, enda stóð í töluverðu stappi með hann fyrst í stað. Skiptust félagsmenn þá í tvo hópa, með eða á móti. Ólafur í Stíghúsi faðir Þorkels kaupmanns hafði verið harðasti fylgismaður samningsins og stappað stálinu í félagsmenn. Voru mikil fundahöld hjá félaginu út af þessu og lá við sundrung félagsins um tíma áður en sættir náðust í málinu. Á einum þessara funda var það sem Erlendur –Gamli í Smiðshúsum sagðist “ ekki vilja hafa neitt andskotans bríarí fyrir Lefolii- verslunina” en karlinn hafði haft einhver snöp hjá Lefolii- verslun á milli vertíða.
(Þegar verkamenn fóru alvarlega að leitast við að fá kjör sín bætt, við vinnu hjá Lefolii -verslun kom Sigurður Þorsteinsson nokkuð þar við sögu en hann var í nefnd sem fjallaði um málið í byrjun. Hann segir svo frá:
Samningur var saminn og var ráðgert að allir verkamenn skrifuðu undir hann. Áður en hann var gjörður opinber fór ég ásamt öðrum nefndarmanni á fund Sigurðar sýslumanns (Ólafssonar) og óskuðum eftir að hann skoðaði samninginn með það fyrir augum að hann færi ekki í bága við gildandi lög og hvort að eftir honum yrði dæmt ef til þyrfti að taka.
Einhverjir höfðu veitt því eftirtekt að sýslumaður gerði sér erindi niður á Bakka þá um kvöldið, en sama kvöld fór fram fjölmennur fundur (í Barnaskólahúsi) þar sem allir skrifuðu undir samninginn fyrir utan 5 eða 6 menn sem skoruðust undann.
Morguninn eftir kom tilkynning uppfest í verslunarhúsum að á næsta vori yrðu verkamenn ráðnir upp á tímakaup. ( áður á daglaunum miðað við 12klst á 12 ½ aur pr klst)
Þetta tímakaup var að vísu lítið eitt lægra en tiltekið var í samningnum en þó að 2/5 hærra en verið hafði áður. Við höfðum nokkra vissu fyrir því að Sigurður Sýslumaður hafi hér haft hönd í bagga um sættir í málinu og út frá þessu var samið um málið svo ekki kom til árekstra að sinni. Samþykkt var á fundi í félaginu að laga samninginn að þessu til bráðabrigða. Seinna kom til þess að verslunin riftaði samkomulagi þessu að nokkru og áttu örugglega þessir 5-6 menn er áður var getið,sinn þátt í því.
Út af þessu var haldinn sáttafundur á Bakkanum er stóð í 8-10 klst.
Endaði sátt á þann veg að verslunin gekk að öllum kröfum stjórnar verkamannafélagsins og lofaði að ekki skildi framar rifta samningum af verslunarinnar hálfu.
Mér er ekki grunlaust að sáttafundurinn hafi verið dreginn svo á langinn sem raun varð á vegna þess að leitað var ráða hjá Sigurði Sýslumanni meðan á fundinum stóð.
Þessi samningur er nú löngu tíndur, en á sama tíma gerði Báran á Stokkseyri (síðar Bjarmi) samskonar samning á sínu félagssvæði og hljóðar taxtinn svo frá 8.apríl 1905:
1) frá 1.apríl-1.júlí skulu laun karla vera 20 aurar og 15 aurar fyrir konur fyrir hverja unna klukkustund.
2) Frá 1.júli – 10 september, lægst 30 aurar fyrir karla og 20 aurar fyrir konur.
3) Frá 10 september til ársloka, lægst 20 aurar við upp og útskipun en 15 aurar við aðra vinnu. Vinnulaun skulu borguð í peningum.
Auk þess bættu Stokkseyringar við samninginn að reynt skyldi að skrúfa upp kaupið um 5aura í nætur og helgarvinnu, en það ákvæði mun ekki hafa verið í samningi Bárunnar á Eyrarbakka.
Í byrjun aldarinnar voru daglaun fyrir 12 tíma vinnu unna frá 6 að morgni til 8 að kvöldi 1kr og 50 aurar eða 12 ½ eyri á klst. nema um sláttinn, en þá voru greiddar 2kr í daglaun.
Árið 1906 eða jafnvel fyrr var sá siður tekinn upp að halda jólaskemmtun fyrir börn og á sama ári færði félagið upp sjónleik fólki til skemmtunar og var ágóðinn notaður til að styrkja sjóði félagsins. Þann 18. febrúar sama ár var styrktarsjóður félagsins stofnaður með 89 kr. og 60 aurum sem var ágóði af hlutaveltu sem félagið efndi til í þessu skyni og haldinn þennan sama dag.
Fyrstu umsjónamenn sjóðsins voru þeir Jónas Einarsson í Garðhúsum og Loftur Arason í Inghól og voru árgjöld félagsmanna í sjóðinn 25 aurar, en árið 1911 var árgjaldið hækkað í 35 aura. Mörgum félagsmönnum ofbauð árgjaldið svo að þeir þóttust ekki hafa efni á aðild að sjóðnum og stóðu utan við hann. Aðaltekjur sjóðsins voru þó í langan tíma ágóði af hlutaveltum sem félagið efndi til öðru hvoru í þessu skyni sjóðnum til styrktar. Kom sjóðurinn oft að góðum notum þegar illa stóð á enda ekki í marga staði að sækja á þeim tíma.
Á sama ári var stofnuð pöntunardeild innan félagsins sem sjá átti um innkaup á vörum fyrir félagsmenn og afgreiðslu þeirra. Forstöðumaður deildarinnar var Oddur Oddsson gullsmiður. Pöntunarfélagið lagðist þó fljótlega niður sökum vanskila einstakra félagsmanna og tapaði Oddur 34 kr. á þessum viðskiptum, en félagsjóður endurgreiddi honum þó helming þeirrar upphæðar 10 árum seinna.
Á þessu ári skoraði félagið á hreppsnefndina að hún frestaði hreppsnefndarkosningum sem fram áttu að fara vorið eftir til haustsins, svo sem flestir gætu notið kosningaréttar síns þar sem svo margir væru fjarverandi vegna vinnu sinnar þá um vorið og var félagið ávallt vakandi yfir þessu svo sem mörgu öðru og lengi síðan hélt félagið sömu áskorunum þegar hreppsnefndarkosningar stóðu fyrir dyrum öðru hvoru.
Árið 1905 fengu verslunarmenn inngöngu í félagið og jók það mjög á starfsemina, þar sem í þeirra hópi var margt góðra starfskrafta sem vanir voru félagsmálum. Auk verslunarmanna bættist nýr félagsmaður í hópinn, en það var Bjarni Eggertsson búfræðingur sem mjög átti eftir að koma við sögu félagsins næstu áratugina og var hann formaður Bárunnar um langt skeið.
Á árunum 1907-1909 hóf félagið að gefa út handskrifað blað sem nefndist “Blær” og félagsmenn rituðu í ýmsar ágætar greinar og oftast undir dulnefnum. Jafnan var lesið uppúr blaðinu á félagsfundum og efni þess síðan rætt á eftir. Í blaðið var helst ritað um ýmis framfaramál félagsmanna og íbúa þorpsins og má þar nefna –vegamálin, því vegi vantaði nánast algerlega á þessum tíma og voru raunar ekkert annað en vagnslóðar og troðningar.-Símamálið, það snerist um að fá lagðan síma til þorpsins og stofnun símstöðvar- Netamálin, snerust um að hefja þorskveiðar í net í stað línu og færaveiða er þá helst tíðkuðust. -Þangbrennslu, en úr þangi mátti vinna verðmætt joð með þeim hætti. - Jarðakaupa og ræktunarmálin ásamt mörgu fleira. Einnig var þar eitt og annað af léttara taginu. Útgáfu blaðsinns lauk á styrjaldarárunum fyrri. Skömmu fyrir seinni heimstyrjöldina var hafist handa við að endurvekja blaðið en útgáfa þess varð þó ekki til langframa.
Árið 1908 var símamálið mjög til umræðu á félagsfundum og komu fram áskoranir á hreppsnefndina að taka þátt í rekstri símstöðvar á Eyrarbakka ef Landsíminn legði símalínu hingað austur, sem þá var komið til umræðu. Helstu forsvarsmenn símamálinu voru þeir Jóhann V. Daníelsson verslunarmaður og Oddur Oddson gullsmiður,en hann varð síðan fyrsti símstöðvarstjórinn á Eyrarbakka þegar síminn tók til starfa árið 1909.
Guðna Jónsyni verður seint fullþakkað starf sitt í þágu félagsinns og óvíst hvort nokkur annar hefði getað leitt það jafn farsællega og hann gerði fyrstu árin. Víðast annarsstaðar tolldu formenn vart lengur í stöðu sinni en út árið og á Stokkseyri til að mynda voru 7 formenn fyrstu 4 árin. Það sýnir betur en nokkuð annað þá erfiðleika sem formenn verkalýðsfélaganna áttu við að glíma fyrstu starfsárin. Víða var hreinlega gengið frá slíkum félögum dauðum eftir stuttan tíma þar sem samstaða verkamanna og forustunnar var ekki fyrir hendi. Guðni naut mikils stuðnings frá þáverandi varaformanni Sigurjóni Jónsyni frá Norðurkoti síðustu árin sem Guðni gegndi formennsku í félaginu en hann lauk sínum formannsferli í desember 1909.
Bjarni Eggertsson formaður 1910
Bjarni Eggertsson búfræðingur á Tjörn tók við formennsku af Guðna og átti síðan sæti í stjórn félagsinns óslitið til ársinns 1931. Fyrst sem formaður en síðan gegndi hann lengi varaformennsku í félaginu. Þá var hann á nefndu tímabili ritari í nokkur ár. Þótt Bjarni væri einlægur verkalýðssinni og málsvari alþýðunnar, skorti nokkuð á framkvæmdasemi fyrir félagið. Hann var fyrst og fremst áróðursmeistari og hvatti sífellt til bættra kjara og aukna framkvæmda. Einn fornvinur hans orðaði það svo að hann hleypti eldi í allt og alla. Honum vantaði þó afl til að þoka málum félagsinns áfram. Bjarni hélt samt hjörðinni saman og á þessum árum var léttur blær yfir félagsstarfinu. Fastur liður í félagsstarfinu var afmælisskemmtun félagsinns, Báruballið svonefnda sem haldið var árlega og Bjarni hafði forgöngu fyrir.
Þó reynt væri að halda í horfinu í kaupgjaldsmálum dróst félagið nokkuð afturúr á þessum árum og sérstaklega á heimstyrjaldarárunum fyrri, en þá kreppti vöruskortur og dýrtíð illilega að verkafólki hér á Eyrarbakka sem annarstaðar á landinu og voru því farnar aðrar leiðir til að bæta afkomuna. Bjarni var mikill fylgismaður aukinnar ræktunar og eggjaði menn á að auka við búfénaðinn og kartöfluræktina enda byggðu menn í auknum mæli afkomu sína á búskap og jarðrækt með tilfallandi vinnu á þessum tíma. Menn höfðu þá kálgarð við hvert hús og voru jafnvel farnir að plægja sér garða meðfram sjógarðinum beggja vegna og bera í þara sem þótti afburða góður áburður. Bjarni átti síðar sæti í landbúnaðarnefnd Eyrarbakkahrepps.
Til er vísa sem Bjarni Eggertsson samdi á þessum árum og er hún svona:
Þó stundum verði pat í pakkhúsinu
Og piltar fái dálítinn kuldahroll.
Þá finnst mér líka vert að hyggja að hinu
Að af hrollinum við greiðum engan toll.
Vísan er ort í tilefni þess að fundir félagsinns fóru jafnan fram í pakkhúsinu við Háeyri, en þar var upphitun engin og urðu menn oft að berja sig til hita á köldum vetrardögum.
Þorfinnur Kristjánsson formaður 1915
Þorfinnur Kristjánsson kom til Eyrarbakka vorið 1915 sem prentari við blaðið Suðurland sem gefið var út á Eyrarbakka og varð hann ritstjóri þess árið eftir en tekur við formensku af Bjarna Eggertssyni í Bárunni um miðjan desember 1915 og getur um störf sín í félaginu í ævisögu sinni, þar sem segir. “ Það leiðir að sjálfu sér að ég var í verkamannafélaginu Bárunni. Ekki minnist ég þó þess að nokkuð sérstakt liggi eftir mig frá þeim tíma. Ég talaði á fundum þess og var hvatamaður að Jóhanni V Daníelssyni var vikið úr félaginu. Mér fannst illa viðeigandi að hafa einn af stæðstu atvinnurekendum þorpsins í félaginu. Ég held það hafi verið einasta afrek mitt í félaginu”.
(Þorfinnur minnist ekki á formensku sína í félaginu í ævisögu sinni þó heimildir bendi til þess að hann hafi þar gengt formennsku í eitt ár. Sömu heimildir benda til að brotthvarf Jóhanns V. Daníelssonar úr félaginu hafi borið að með öðrum hætti.)
Deila sú sem olli brotthvarfi Jóhanns V. varð á árinu 1916, út af inngöngu félagsinns í Alþýðusamband Íslands. Þorfinnur hafði framsögu fyrir málinu og hvatti eindregið til að félagið gengi þegar í sambandið. Skiptust menn í tvær fylkingar, með og á móti. Jóhann var fremstur í flokki þeirra sem mótfallnir voru inngöngunni og urðu miklar og heitar umræður um málið og stóð fundurinn fram á nótt. Til þess var tekið þegar Jóhann V og Sigurður Ísleifsson trésmiður deildu hart um málið. Þá stóð Jóhann V frammi fyrir Sigurði og hafði blýant á lofti en Sigurður otaði tommustokk sínum. Fundinum lauk síðan með atkvæðagreiðslu um málið og var samþykkt með nokkrum meirihluta að sækja um inngöngu í Alþýðusambandið.
En Jóhann V ásamt nokkrum öðrum hættu að mæta á fundi félagsinns eftir þetta og hraktist þannig úr félaginu. Báran gekk svo í ASÍ á stofnári sambandsins.
Annað mál sem Þorfinnur beitti sér fyrir, var að félagið veitti Haraldi Guðmundssyni á Stóru Háeyri styrk til að stunda dýralækningar á Bakkanum, en Haraldur fékkst við þessháttar þó ólærður væri. Haraldur mun hafa fengið smá styrk til þessa í eitt ár að minstakosti.
Á formannsári sínu var þorfinnur jafnframt ritstjóri Suðurlands og skrifaði mikið í blaðið um verkalýðsmál ásamt Bjarna Eggertssyni. Þorfinnur fluttist síðan af Bakkanum 1917.
Einar Jónsson formaður 1916
Einar Jónson í Túni var járnsmiður að atvinnu og hafði hann fyrst smiðju í Regin en síðar við Heklu vöruhúsin þar sem Vilhjálmur Gíslason stundaði síðar iðn sína um margra áratuga skeið eftir að Einar í Túni var farinn af Bakkanum.
Einar í Túni var mikill verkalýðssinni og rótækari en flestir aðrir enda var hann í hinum rótækari armi Alþýðuflokksins. Á formanns árum hans var félagslífið í hvað mestum blóma og var Báran þá öflugari og fjölmennari en í annan tíma á þessum árum. Þegar flest var um 1920 voru félagsmenn 189. Þá voru Eyrbekkingar líka hvað fjölmennastir eða í kringum 1000 manns. Íbúum fækkaði þó ört efir að kaupfélagið Hekla og Sparisjóður Árnessýslu urðu gjaldþrota. Árið 1928 gekkst félagið fyrir stofnun Slysavarnardeildar á Eyrarbakka sem starfað hefur sleitulaust síðan. Einar lét af formennsku 1929 og fór af Bakkanum skömmu eftir húsbrunan í Túni 1932, en þar fóru forgörðum elstu fundagerðabækur Bárunnar.
Þorleifur Guðmundsson formaður 1929
Þorleifur Guðmundsson frá Háeyri gegndi formennsku í Bárunni í eitt ár og í hans tíð voru holræsismálin hvað mest í deiglunni og lagðist félagið á árarnar með Búnaðarfélagi Eyrarbakka um að hrinda þessu verki í framkvæmd, en með því átti að losa vatn af túnum norðan þorpsins og veita því til sjávar um lokræsi og gera þannig aukna túnrækt mögulega. Þá var hafist handa við að byggja þrjú slík lokræsi í gegnum þorpið. Landsbanki Íslands átti þá þrjár megin jarðir Eyrarbakkahrepps og lagði einna mesta fé til framkvæmdanna ásamt lands- og Sýslusjóði en einnig lögðu 57 einstaklingar fé til verksinns auk þess sem Alþingi veitti fjárstuðning til framkvæmdanna.
Þorleifur flytur svo af Bakkanum 1930. Hann var síðan um skeið alþingismaður Árnesinga.
Andrés Jónsson formaður 1930
Andrés Jónson frá Smiðshúsum tekur við formennsku eftir Þorleif og í hans tíð vor brotið upp á því nýmæli að veita konum inngöngu í félagið og gengu alls 9 konur í félagið. Vera þeirra í félaginu var þó ekki löng að þessu sinni því árið 1936 eru þær allar gengnar úr félaginu og koma ekki aftur við sögu félagsinns fyrr en árið 1954. Ekki er vitað um ástæður þess að konurnar hurfu af vettvangi en eftirfarandi vísa skýrir málið.
Bjarni konum ennþá ann
Eins og fleiri gera
En leggur við því blákalt bann
Að í Bárunni megi þær vera.
Harkan var mikil á þessum tíma og af pólitískum toga og félagið skiptist í fylkingar eftir pólitískum línum. Var annar armurinn róttækur en hinn var hægfara. Andrés tilheyrði rótækari armi félagsinns og hinir sem voru fylgjandi hægfara áherslum sættu sig ekki við hann sem formann. Því var það að hinn hægfara armur með Bjarna Eggertssyni í broddi fylkingar, boluðu Andrési úr formannssætinu áður en starfstími hans var útrunninn og við formennskunni tók Bjarni til bráðabrigða.
Bjarni Eggertsson formaður 1931
Bjarni Eggertsson er kjörinn formaður félagsinns árið 1931 en vera hans í formannsstólnum verður þó ekki löng að þessu sinni því að á miðju sumri árið 1931 er hann feldur úr formannssætinu þegar verkamenn samþykktu næstum einróma vítur á hann og kemur hann ekki meira við sögu félagsinns eftir það.
Tiltrög málsinns voru þau að Bjarni samþykkti fyrir félagsinns hönd að föngum á Litla Hrauni skyldi veittur réttur til vinnu við vegagerð í Ölfusinu, en þó með því skilyrði að hann sjálfur og einn allra verkamanna Bárunnar sæti að þeirri vinnu. Einna harðastur í gagnrýni á þessi verk Bjarna var Bjarnfinnur Þórarinsson á Búðarstíg enda hafði Bjarni með þessu bætt gráu ofan á svart því ríkið lét fangana jafnframt keppa við verkamenn á almennum markaði auk þess sem ríkið beitti sér fyrir því að aðeins Reykvíkingar kæmust að í svokallaðri “Síberíuvinnu” sem var atvinnubótavinna fyrir atvinnulausa verkamenn og fór fram við hreppamörkin milli Eyrarbakka og Sandvíkurhrepps.
Þorvarður Sigurðsson formaður 1931
Þorvarður Sigurðsson skólastjóri gekk í félagið 1929 að beðni þáverandi formanns Þorleifs Guðmundssonar. Þorvarður tók síðan við formennsku af Bjarna Eggertssyni og gegndi því starfi þar til hann fór af Bakkanum haustið 1938.
Þorvarður segir sjálfur að afkoma verkamanna hafi verið mjög bágborin og fátækt algeng á þessum tímum. Í tíð þorvarðar er stunduð hin svokallaða “Samyrkja” en það var sameiginleg ræktun garðávaxta sem félagsmenn Bárunnar stunduðu, en þó hafði hver sína skák til ræktunar fyrir sjálfan sig. Báran hafði hinsvegar forgöngu um ræktina og sá til þess að landið undir garðana væri plægt en landbúnaðarnefnd Eyrarbakkahrepps úthlutaði landi til þessara þarfa á söndunum vestan þorpsins. Af þessu var nokkur tekjubót á atvinnuleysisárum kreppunnar. Samyrkjan mun hafa starfað undir handarjaðri félagsinns á árunum 1932-1939
Árið 1936 tók félagið að berjast fyrir stofnun sjúkrasamlags í hreppnum og kom Lúðvík Nordal síðar til liðs við félagið í þessu máli og var sjúkrasamlagið stofnað skömmu síðar.
Kristján Guðmundsson formaður 1939
Kristján Guðmundsson tekur við formennsku af Þorvarði 1939 en hafði áður gengt varaformennsku í tíð Þorvarðar.
Í tíð Kristjáns var Sandvarnargarðurinn svo nefndi í byggingu og urðu allsnörp átök milli verkamanna og forráðamanna hreppsinns við þessa vinnu. Verkamönnum voru aðeins greiddir 67 aurar á tímann sem var undir taxta en taxtinn var þá 1.kr.pr.klst. Verkamenn lögðu niður vinnu og neituðu að hefja hana á ný nema greitt yrði samkvæmt taxta. Ákveðið var að skipa samninganefnd til að leysa vandann og sátu þeir Kristján Guðmundsson formaður og Andrés Jónsson í nefndinni fyrir hönd verkamanna en Sigurður Guðmundsson bóksali fyrir hönd hreppsinns. Þeim samningum lauk með því að Kristján samdi við Sigurð án þess að hafa Andrés með í ráðum. Samið var upp á sama kaup, 67 aura á tímann en verkamenn áttu síðar að fá mismuninn frá kauptaxta greiddan í bréfum. Við þennan samning var svo aldrei staðið og hlaut Kristján ámæli fyrir vikið.
Á þessum árum fóru verkamenn að rétta úr kútnum vegna hinnar miklu vinnu við hernaðarmannvirkin sem breska setuliðið var að láta reisa á Kaldaðarnesi og spruttu upp ýmsar deilur vegna þessa milli verkalýðsfélaganna á Eyrarbakka og Stokkseyri um rétt til þeirrar vinnu.
Í fundagerðarbók verkamannafélagsinns Bárunnar er herstöðvarvinnu fyrst getið á félagsfundi 2.des 1940. Breska setuliðið greiddi þá fyrst kauptaxta Dagsbrúnar í Reykjavík ásamt hefðbundnum matar og kaffitímum. Þann 23. september fór yfirmaður setuliðsins fram á að Íslendingar ynnu í kaffitímum og tækju aðeins ½ tíma í mat og kaup hækkað að sama skapi í 1.95 kr. á klst. En fljótlega lækkaði setuliðið kaup niður í 1.78 kr./klst.
Einhverjar deilur urðu um málið og þann 3. janúar 1941 var öllum sagt upp, 200-300 manns.
Á fundi Bárunnar 5. janúar 1941 skýrir Jóhann Ólafson -kaupmannsson og mælskur á ensku- frá viðtali sínu við yfirmenn Breta í Kaldaðarnesi og kvað þá vera fyrir sitt leyti ósamála vinnustöðvuninni sem stjórn setuliðsins kom á 3. janúar.
Svo virtist að hreifing væri komin á málið frá æðri stöðum og þann 9. janúar lá fyrir hjá Bárunni tilboð frá breska setuliðinu um 2.06 kr./klst. miðað við 9 klst. vinnudag.
Tilboðinu var tekið hið snarasta.
Sigurjón Valdimarsson formaður 1942
Sigurjón Valdimarsson í Norðurkoti tekur síðan við formennsku í Bárunni 19. deseber 1942. Í stjórnartíð Sigurjóns ber hæðst sá mikli áhugi sem var á stofnun Útgerðarfélags og Hraðfrystihússins og byggingu þess sem átti eftir að breyta afkomumöguleikum verkafólks á Eyrarbakka til frambúðar. Forustumenn Bárunnar lágu ekki á liði sínu við að eggja hreppsnefndarmenn og aðra til að stíga fram á veginn í hinum ýmsu framfaramálum sem snertu alla þorpsbúa. Þá eru liðin 40 ár frá því að nokkrir menn komu saman í Bræðrafélagshúsi til að stofna þetta fornfræga félag. Ólafur Ólafsson tekur síðan við formennsku af Sigurjóni 1943 en árið 1944 verður Kristján formaður á ný og heldur sæti sínu næstu árin.
Síðar var byggt ofan á kjallarann og var það húsið Skjaldbreið. Löngu síðar var svo sett upp bakarí í kjallara þess hús.
Öryggismál sjómanna voru oft til umræðu og iðulega eitt af áherslumálum félagsinns.
Á fundi sem haldinn var 3 mars árið 1944 vegna Læknamálsinns, en Alþingi Íslendinga hafði þá nýverið lagt til að flytja embætti héraðslæknisinns frá Eyrabakka til Selfoss. Á fundinum var samþykkt svohljóðandi tillaga:
Fundur haldinn í verkalýðsfélaginu Bárunni á Eyrarbakka 3. þ.m. mótmælir framkominni þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að héraðslæknirinn verði fluttur frá Eyrarbakka að Selfossi. Hins vegar telur fundurinn eðlilegt og sjálfsagt að Eyrarbakkalæknishéraði verði skipt í tvennt. Öll rök hníga að því að þorpin tvö, Eyrarbakki og Stokkseyri hafi lækni með búsetu hér bæði vegna fjölmennis þessara staða og eins hitt að hér er rekinn sjávarútvegur í báðum þorpum við hina hafnlausu strönd og því mikil slysahætta. Þá má benda á að það mun eindæmi að flytja lækni úr mest fjölmenni héraðs í fámennan stað.
Árið 1953 hafði útgerðinni á Eyrarbakka vaxið nokkuð fiskur um hrygg og mikill afli farinn að berast á land. Um þetta leyti samþykkir Báran að Hraðfrystistöðinni verði heimilt að taka upp vaktavinnu og eru gerðir samningar um það samkvæmt fyrirmynd verkamannafélagsins Bjarma á Stokkseyri sem nokkru áður höfðu gert ágætan samning í þessa veru við útgerðina á Stokkseyri. Kaupgjaldsmálin við HE voru þó oft tilefni til deilna innan félagsinns, þar sem toguðust á hagsmunir fyrirtækisinns og hagsmunir fólksinns og erfiðleikar í fjárhagslegum rekstri fyrirtækisinns allt frá stofnun þess.
Um þetta leiti er einnig hafist handa við undirbúning byggingu Beinamjölsverksmiðju í sameiginlegri eigu útgerðanna á Eyrarbakka og Stokkseyri og eru þau mál talsvert til umræðu þar sem störf Bárunnar og Bjarma skarast nokkuð mað tilkomu verksmiðjunnar og er vilji til þess að störfum við hana verði skipt að jöfnu milli þorpanna.
Andrés Jónsson formaður 1963
Árið 1963 er Andrés Jónsson kjörinn formaður félagsinns á ný. Atvinnumálin í þorpinu eru þá í föstum skorðum. Hraðfrystistöðin og útgerðin eru sem hjarta og lunga samfélagsinns. Til viðbótar kemur svo Plastiðjan hf. sem nokkru áður hafði verð komið á fót og hafði aðsetur sitt í Miklagarði þar sem fram fór framleiðsla á einangrunarefni úr plasti. Hafnarbætur eru stöðugt verkefni á næstu árum og atvinnuleysi heyrir að mestu sögunni til. Á þessum árum er starf félagsinns komið í mjög fast horf eftir nokkra lægð undangengin ár en það má segja að félagið hafi legið í nokkrum dvala en er nú rifið upp á ný í tíð Andrésar. Báran leggst nú á árarnar með Alþýðusambandi Íslands og Alþýðusambandi suðurlands um bætt kjör á landsvísu og er verkfallsvopninu oft beitt á komandi árum.
Í tíð Andrésar verður kona í fyrst skipti kjörin í stjórn félagsinns, en það er Guðrún Ó Thorarensen og á hún eftir að vera virk í félaginu lengi síðan. Árið 1967 er Sigurður Andersen kosinn í stjórn félagsinns en hann kom inn sem varamaður ritara veturinn 1966 en tók nú við starfi gjaldkera af Guðrúnu sem kaus að draga sig úr því starfi.
Á þessum árum voru miklir erfiðleikar hjá útgerð og rekstri Hraðfrystistöðvarinnar einkum vegna verðfalls á afurðum og ótryggu rekstrarfé fyrirtækisinns eftir að landsbankinn neitaði fyrirtækinu aðgang að lánsfé og kom það mjög niður á fjárhag Bárunnar þar sem illa gekk að innheimta félagsgjöldin og greiða út laun, en hjá Hraðfrystistöðinni störfuðu allt að 80- 100 manns á vertíðum.
Kjartan Guðjónsson formaður 1972
Kjartan Guðjónsson frá Sandprýði kjörinn formaður félagsinns. Félagið hafði eignast hlut í Orlofshúsum ASI í Ölfusborgum og höfðu félagsmenn nú tækifæri til að dvelja í frýjum sínum á kyrrlátum stað fjarri brambolti hversdagsinns. Einnig var farið að skipuleggja sumarferðir með eldri borgara víða um landið. Annars var Hraðfrystistöð Eyrarbakkahrepps og Plastiðjan hf. mest afgerandi í starfsemi félagsinns og með tilkomu humarvinnslu HE lagaðist atvinnuástandið nokkuð yfir sumartímann frá því sem var, en Hraðfrystistöðin á í talsverðum fjárhagskröggum enn sem fyrr.
Guðrún Ó Thorarensen 1982
Guðrún Ólöf Thorarensen verður fyrsta konan sem gegnir formennsku í félaginu. Árið 1983 er haldið upp á 80 ára afmæli félagsinns og efnt til fagnaðar af því tilefni. Báran er í auknum mæli farin að veita styrki til góðgerðarmála og nutu ýmis góðgerðarsamtök ágætis af því, svo sem SÁÁ. Eftir sem áður var Plastiðjan hf. og HE þeir staðir sem heitast brann um þessar mundir. Báran ákveður að koma á helgarvinnubanni og er það liður í þeim vinnuverndarsjónarmiðum sem félagið er í auknum mæli farið að taka upp á sína arma. Enn sem fyrr eru ýmsir erfiðleikar í atvinnumálum Eyrbekkinga þar sem rekstur HE gengur mjög brösuglega og fjárhagslegir örðuleikar steðja að fyrirtækinu. Ekki bætir úr skák sú almenna kjararýrnun sem verður til um þessar mundir vegna bágs stjórnmálaástands í landinu og ofan á það bætist svo gríðarlegt atvinnuleysi meðal þorpsbúa.
Launamisrétti milli kynja verður til að vekja upp nýja baráttu fyrir launajafnrétti kynjanna og á sú umræða eftir að vera viðvarandi næstu áratugi.
Báran selur eignarhlut sinn í Ölfusborgum og leitar nýrra leiða í orlofsmálum og eru umræður um kaup eða leigu á sumarbústað ofarlega í deiglunni.
Eiríkur Runólfsson formaður 1984
Eiríkur Runólfsson tekur við formennsku í félaginu árið 1984 (en hann gekk í félagið 3. febr.1949) þetta ár er samþykkt að kaupa hlutafé í nýstofnaðri útgerð Sævars Sveinssonar. Þórðar Þórðarsonar og Sverris Bjarnfinnssonar um bátinn Otto Watne frá Seyðisfirði upp á 1.miljón með skilyrði um að aflanum yrði landað hjá HE. Félagið glímir enn við bágt atvinnuástand í þorpinu og fjámálaörðuleikar Hraðfrystistöðvarinnar verða til þess að uppsagnir standa fyrir dyrum. Fyrirtækið á jafnframt í erfiðleikum með að greiða út laun enda í raun orðið gjaldþrota.
Bakkafiskur verður svo nýr eigandi Hraðfrystistöðvarinnar og tekur upp þá nýbreytni í vinnslu sjávarafurða að flaka og frysta kola og eru fengnir menn frá Grymsby og Hull með leyfi Bárunnar til að starfa við vinnsluna sem virðist lofa góðu í rekstri fyrirtækisinns sem er einnig með humarvinnslu yfir sumarið og loðnufrystingu á vetrarvertíðinni og talsverð atvinna verður fyrir heimafólk við þessa breyttu aðstæður.
Helgarvinnubanninu er þó haldið við lýði enn um sinn en þótti þó umdeilanlegt og var aflétt um síðir.
Eftirsókn eftir erlendu starfsfólki fer vaxandi og er Bakfiski veitt leyfi fyrir nokkrum hópi verkamanna frá Póllandi en nokkuð var þó deilt um málið þar sem ekki var sýnt að heimamenn gengju fyrir um vinnu.
Um þetta leiti er Hitaveita Eyra stofnuð en gjaldtaka þykir nokkuð há miðað við það sem gerist annars staðar og ekki þótti vatnið vera sérlega heitt en það var að hámarki 60°C þegar það skilaði sér í hitakerfi húsanna og eru um þetta miklar umræður á fundum félagsinns.
Nýtt fyrirtæki á Eyrarbakka Alpan hf. hefur rekstur sinn. Fyrirtækið framleiðir eldunaráhöld úr endurunnu áli, einkum potta og pönnur með teflonhúð sem þykir til mikilla þæginda við eldun matvæla. Fyrirtækið var keypt frá Danmörku og lagaðist atvinnuástandið til muna með tilkomu þess, en þó þótti þörf á að flytja inn 4 Pólverja til að starfa við verksmiðjuna og var leyfi veitt af félaginu. Síðar smá jókst innflutningur á erlendu vinnuafli til fyrirtækisinns og var til að mynda hart deilt um hvort ætti að veita tveimur Indverjum leyfi til að starfa hjá fyrirtækinu. Í lok aldarinnar störfuðu nánast einvörðungu Pólverjar hjá fyrirtækinu samhliða vaxandi fjárhagsvanda fyrirtækisinns.
Báran kaupir hlut í Fiskmarkaði Þorlákshafnar, en fiskmarkaðir voru mjög að ryðja sér til rúms um landið upp úr 1990. Um þetta leiti er haldinn sameiginlegur fundur Bárunnar og Boðans í þorlákshöfn þar sem þessi fiskmarkaðsmál voru í undirbúningi.
Í orlofsmálum félagsinns eru kaup á hjólhýsi í Þjórsárdal á döfinni og nokkru síðar er keyptur sumarbústaður í Reykjadal við Flúði á 2.5 milj. og þykir nú aðstaða til orlofsdvalar hafa batnað til muna hjá félagsmönnum.
Dvalarheimili aldraðra á Sólvöllum var sett á laggirnar og naut uppbygging þess styrkja frá félaginu enda áttu nú eldri borgarar sem þurftu þess með, kost á að eiða ævikvöldinu í heimabyggð. Einnig var styrkur veittur til gerðs barnaleikvallar.
Árið 1992 stöðvast rekstur Bakkafisks og á fyrirtækið í erfiðleikum með að fá lánafyrirgreiðslu til að geta haldið rekstrinum gangandi. Það verður til þess að endir er bundinn á sögu fyrirtækisinns á Bakkanum og flytur það með hluta af starfseminni til þorlákshafnar en hús og tæki eru seld nýjum eigendum og kemur þá Ísfold til sögunnar sem hefur starfrækt húsakynni Hraðfrystistöðvarinnar síðan með mjög svo stopulli vinnu og fáum starfsmönnum en helst hefur loðnufrysting yfir vertíðina kallað á aukin starfskraft.
Upp úr árinu 1999 er farið að viðra sameiningu við verkalýðsfélagið Þór á Selfossi og fljótlega eftir það er gengið til samningaviðræðna sem leiða til sameiningar þessara félaga og er félaginu þá gefið nafnið Báran- Þór. Nokkrum árum siðar kemur svo Bjarmi á stokkseyri inn í þessa sameiningu og í framhaldi af því er síðan stofnað nýtt félag árið 2003 undir nafninu Báran stéttarfélag. Fyrsti formaður hins nýja félags er Kristján Jónsson frá Selfossi.
Og lýkur þar með 100 ára sögu Bárunnar á Eyrarbakka.
Heimildir:
Eftirritanair og úrdrættir úr fundagerðabókum Bárunnar.
Fundargerðabók Bárunnar frá 1983
Bókin með Oddi og Egg útg.2004
Bókin Þörfin Knýr útg.1991
Ýmsar munlegar og skráðar heimildir úr skýrslum og bréfum.
Drög að sögu félagsinns í eigu d.b.Sigurðar Andersen.
Saga sunnlenskra byggða 1.b.
Efnisorð: Verkamannasaga