Eyrarbakki - Saga og Atburðir

Eyrarbakki, sögustaður frá landnámi. Gamlar sögur og atburðir sem tengjast þessum stað.

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Eyrarbakki, Iceland
þorskur.JPGboat1359-Álaborg ÁR 25Björgunarsveitin Björg.BMPEyrarbakki RollerEyrarbakki

laugardagur, september 25, 2004

Sagan af Bjarna Eggerts.

Bjarni Eggertsson var oft ofurlítið kendur við uppskipunina og sáu vinnufélagar hans um að koma honum í lestina svo að sem minnst bæri á honum. Svo var eitt sinn verið að skipa upp sementi og sat Bjarni í lestinni og orti. Um kvöldið þegar vinnu lauk kom karl upp og hafði þá með sér umbúðir af sementspoka sem rifnað hafði við uppskipunina. Var pokinn allur út krotaður af vísum sem Bjarni hafði ort þar í lestinni yfir daginn og gerði hann ekki annað þann daginn.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, september 23, 2004

Sagan af Jóni-Borgara.

Jón-Borgari í Eyvakoti faðir Gísla þar var góður formaður. Eitt sinn er hann var gamall orðinn, reri hann hjá öðrum ungum formanni á Bakkanum. Eitt sinn lenda þeir í vonsku veðri og illum sjó. Þeir þurftu að berja allt á árum því engin voru seglin. Nú fór að gefa á bátinn og ungi formaðurinn gerðist nú órólegur og að lokum segir hann við Jón-Borgara "Heldurðu að þú setjist ekki hérna við stýrið Jón minn, hver veit nema ég launi þér með staupi þegar í land kemur". -"þú stendur þá við það" segir Jón og var þetta svo ákveðið og Jón tók við stýrinu. Brá nú svo við að ekki kom dropi í bátinn alla leið til lands. Er í land var komið segir Jón við formanninn unga "nú vil ég fá staupið og hafðu það stórt". Því er skemmst frá að segja að Jón fékk staupið og var það hálfpottur af brennivíni.

S.A.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, september 22, 2004

Varðveitum söguna


Eyrarbakki
Originally uploaded by Yggjungur.

Eyrarbakki ­ í dag.

Flest gömlu húsanna á Eyrarbakka standa enn þann dag í dag mörg hver eins og þaug voru byggð í upphafi, en torfbæir og verbúðir ásamt mörgum verslunarhúsum hafa fyrir löngu verið jöfnuð við jörðu og sér ekki tangur né tetur af þeim.

Hér má sjá gömlu húsin við Búðarstíg og kirkjuna.

Efnisorð:

Hvað kemur í staðinn fyrir fiskinn?


þorskur.JPG
Originally uploaded by Odinnk.

Sjávarútvegur var lengi stundaður frá Eyrarbakka á árunum áður. Fyrst með róðrabátum en vélbátaútgerð hófst fyrir alvöru eftir 1920. Útgerð lagðist af frá Eyrarbakka um og eftir 1990. Síðasta fiskverkunarhúsið hætti starfsemi upp úr aldamótum 2000. Þá hafði Landsbankinn og Kaupfélag Árnesinga lokað útibúum sínum og flest á hverfanda hveli.

Efnisorð:

laugardagur, september 18, 2004

Jón í Koti

Jón hét maður og bjó í Norðurkoti á Eyrarbakka. Jón var einn af þeim hraustustu strákum sem þorpið hafði alið, en hins vegar var hann afskaplega veikur fyrir vínið.
Eitt sinn var Jón spurður hvort hann væri ekki sterkastur þeirra bræðra, “nei!” sagði hann "það er hann Jakop bróðir, maður er eins og kominn í skrúfstykki í höndunum á honum". Jón í Koti var um fermingu þegar hann gekk til Sýslumannsins (Þorsteins Jónssonar) á Kiðabergi sem ekki bara kenndi honum kverið heldur og líka “kenndi” hann honum að drekka og vildi ekki annan hafa fyrir fylgdarsvein á ferðum sínum.

Eitt sinn er þeir voru í slíkri ferð og voru að týja sig til brottfarar eftir dvöl á Kolviðarhóli var Þorsteinn svo drukkinn orðinn að hann komst ekki upp á klárinn enda sjálfur þungur á velli. “Láttu mig upp á hestinn !” sagði hann við Jón. Skipti nú engum togum en Jón í Koti snaraði honum upp á hnakkinn fyrirhafnarlaust. Þá gall í sýslumanni, “þarna sérðu hvort þú hafir verið illa haldinn hjá mér strákur”. Jón var þá um fermingu.

Eitt sinn lagðist Þorsteinn veikur og varð að senda eftir lyfjum til Keflavíkur og fór Jón í Koti þá ferð. Segir nú ekki af ferðum hans fyrr en hann kemur í Grímsnes á leið sinni til baka frá Keflavík. Hann var þá búinn að ganga í gegnum bæði skó og sokka og héngu bara tægjurnar á fótum hans. Í Öndverðaneshverfinu fær hann lánaðan hest og mátti ríða honum að næsta læk er rann á milli jarða en þaðan mátti hann svo ganga berfættur það sem eftir var heim að Kiðabergi.

Þegar Jón kemur aftur á Bakkann 15 ára, ræðst hann til sjós í Þorlákshöfn og var síðar formaður þar um áratuga skeið. Á árunum 1927-1929 reri hann sem háseti hjá Kristni Vigfússyni í Þorlákshöfn.
Eitt sinn sem oftar kemur Jakobína Jakops að Norðurkoti. Þá var Jón þá kendur og sat inni. Spurði kona hans hvar þeir væru þeir feðgar Jón og Jakop í Einarshöfn. Sagði Jakobína sem var að þeir væru upp á mýri við einhverja sýslan. Þá sagði sú gamla og sneri sér að Jóni sínum. "Það er nú munur eða þú þessi mikli maður, ekki þarft þú mikli maður að vera úti við vinnu eins og hann Jakop bróðir þinn og hann Jón-Jak". Stóð þá Jón í Norðurkoti þegjandi upp og gekk fram fyrir, en kom að vörmu spori með smjörköku í höndunum. Stóð vo á að sú gamla var að elda silungasúpu í potti. Gekk Jón að pottinum með kökuna og setti í pottinn. Þá sagði sú gamla ekki orð. Sá að best væri að þegja.


Þegar Jón í Norðurkoti var ungur réðist hann til Þorsteins sýslumanns í Kiðabergi í Grímsnesi. Þorsteinn var sagður drykkfeldur og hermt er að hjá honum hafi Jón í Norðurkoti lært að drekka vín meðan hann var fylgdarmaður sýslumanns á ferðum hanns um sýsluna og víðar. Oft var sýslumaður vel drukinn í þessum ferðum. Einu sinni kom hann á manntalsþing í Ölfusinu og voru margir bændur komnir til þingsins á undan sýslumanni. En sem hann kemur til þingheims segir hann “Hér eru saman komnir margir hundar” Gall þá við frá Þorgeiri á Núpum. "Já og enn fer þeim fjölgandi". Var þá sagt að hljóðnað hafi í Sýslumanni.

Jón í Koti var fæddur 28.jan.1856 í Norðurkoti sem var hjáleiga frá Skúmstöðum. Foreldrar hans voru Jón Ormsson og Kristín Jónsdóttir. Jón í Koti bjó hjá foreldrum sínum til 13 ára aldurs er hann flutti upp að Kiðabergi í Grímsnesi, til Þorsteins Jónssonar sýslumanns þar sem hann svo fermdist 1870. Á Kiðabergi var hann smali og sat yfir fráfæruám sýslumanns á Hestfjalli um tvö sumur en haustið eftir fermingu flytur hann aftur heim til foreldra sinna í Norðurkoti. Jón byrjaði að róa sem hálfdrættingur 15 ára gamall frá Þorlákshöfn og var þar síðar formaður og sótti þaðan sjó um 50 vertíðir. Jón var rammur að afli, þrekinn og atorkumaður mikill. Jón dó 10 mars 1945 þá 89 ára gamall

S.A.

Efnisorð: , ,

föstudagur, september 17, 2004

Jón Sterki.

Þjóðsaga af Eyrbekkingi einum.
Einu sinni kom skip á Eyrarbakka og lagðist þar á höfnina og var meðal annars skipað upp úr því járnhálffötum (það eru kvartél full af tilslegnu járni). Stýrimaður kemur í búð og ber eitt þeirra í fangi sér og setur á borðið og mælti: "Einhvur Íslendingur leiki þetta eftir mér."
Jón er nefndur íslenzkur maður; hann fer og sækir eitt (annað) og setur á borðið. Stýrimaður reiddist og mælti: "Að ári mun ég gjöra þér erfiðara fyrir en þetta." Stýrimaður siglir aftur, en Jón ráðgast við vitran mann er var kunnugur stýrimanni. Sá sagði Jóni að stýrimaður mundi etja á hann víghundi; réð hann honum að gjöra járngjörvi um hægri hönd sér og upp að olnboga og hafa í hendi knött með hvössum fjöðrum út úr sér á alla vegu og reka í gapanda gin hundsins er hann kæmi móti honum, og ofan í kok, og mundi þá duga.
Næsta vor kemur skipið aftur og leggst á höfnina; kemur bátur í land og þar á stýrimaður með hund sinn. Jón er í fjörunni og æðir hundurinn að honum með ginið gapandi og rekur Jón höndina ofan í hann og setur í kok hans vopn sitt og fékk hann bana, en Jón sakaði ekki. Verður stýrimaður verri en hið fyrra sinn og mælti: "Næsta vor skaltu meira við þurfa ef duga skal."
Siglir hann aftur, en Jón ráðgast við vin sinn. Hann kvað koma mundi blámann með stýrimanni og mundi hann ráðast á Jón, en bað hann vefja sig allan í snæri svo blámaður hefði enga handfestu á honum.
Kemur annað vor og fer allt eins og maðurinn gjörði ráð fyrir. Jón vafði sig í snærum og tók móti blámanni og gjörði ei annað en verjast. Blámaður sókti að grimmilega, en mæddist mjög, og lauk svo að hann sprakk um síðir og var það hans bani, en Jón gekk til búðar. Stýrimaður kom og þar og er nú miklu reiðastur, tekur bók úr barmi sínum, lýkur upp í snöggum svip og mælti: "Þegar ég kem næsta vor skaltu fá mér annan helming bókar þessarar, þann sem ég hefi ekki, eða ég drep þig", fer síðan út á skip og siglir á burt, en Jón spyr vin sinn ráða. Hann kvað fátt til ráða, en skrifar þó bréf og bað Jón færa Eiríki presti á Vogsósum. Jón gjörir svo, fór um haustið á fund Eiríks prests.
Eiríkur fagnar honum vel og les bréfið og mælti síðan: "Ég get ekki hjálpað þér heillin góð, því sú bók er ekki nema ein til og ekki gott að ná henni", en þó skrifar Eiríkur bréf og fær Jóni dálítinn trítil og bað hann elta hann hvurt sem hann færi og bera bréfið þar til hann fyndi klett; þar skyldi hann berja á og vita hvort hann yrði nokkurs var.
Fer Jón og eltir trítilinn lengi unz hann stanzar við stein nokkurn. Jón ber á steininn og opnast hann. Kemur út ung stúlka. Jón fær henni bréfið. Hún sagði það væri til föður síns og fer inn, kemur út aftur og segir: "Þetta er sú versta bón sem faðir minn hefir beðinn verið; hann treystir sér það varla; þó mun hann reyna fyrir orð Eiríks á Vogsósum. Þú kemur inn og verður í vetur hjá mér."
Hann fer inn og er hjá henni um veturinn og unir sér vel. Þá er mánuður er til sumars segir stúlkan að nú muni faðir sinn fara af stað, en á sumardaginn fyrsta mælti hún: "Farðu nú að finna föður minn; hann kom í gærkveld og hefir bókina, en er þó mjög máttfarinn." Þau ganga nú til karls; hann lá í rekkju sinni og var mjög lasinn. Hann fær Jóni bókina og bréf til Eiríks prests.
Jón kveður nú karlinn og dóttur hans með blíðu og elti trítilinn heim að Vogsósum og fær Eiríki bréfið; hann las og varð glaður við og mælti: "Farðu nú sem skjótast austur á Eyrarbakka og vertu fljótur til að vaða út í lónið móti bátnum þegar hann kemur og kasta bókinni opinni í fang stýrimanni áður hann kastar sinni bók til þín."
Nú fer Jón austur á Bakka og er hann kom var skipið komið og bátur kom að landi. Jón flýtir sér og veður móti bátnum og kastar bók sinni í fang stýrimanns. Hann brást svo við að bókin hans féll úr barmi hans í bátinn, en hann sjálfur féll fyrir borð og lauk svo hans ævi, en Jón tók bækurnar báðar og færði Eiríki presti, því hann hafði beðið þess. Hann varð þeim feginn mjög og hét Jóni vináttu sinni.
Segir hér ekki af Jóni meira.

Þjóðsaga.

Efnisorð:

fimmtudagur, september 16, 2004

Sagan af Jóni Hor og Kalla Kvenska.

"Þögn!" Hrópaði sýslumaðurinn og barði í borðið. Yfirheyrslunnar voru að fara í hundanna. Hláturinn sauð niðri í vitnunum og skrifaranum. Sjálfur var Sýslumaðurinn orðinn rauður og þrútinn í framan. Hann tók af sér borðalagða einkennishúfuna og lagði hana öfuga á borðið og þurrkaði svitann framan úr sér með stórum rauðum vasaklút. Eftir að hafa slokrað í sig fullu vatnsglasi, spurði hann enn á ný með vonleysi og þreytu í röddinni. " Jón Jónsson ég áminni þig að svara skýrt og skilmerkilega, stalstu flöskunni, eða stalstu henni ekki?"

-"Ég var að segja....."-"Standið upp meðan þér talið maður!", hrópaði Sýslumaður- "já, já, guðvelkomið", sagði litli granni maðurinn sem verið var að yfirheyra. –"eins og ég var að segja æruverðugum sýslumanninum, þá veit ég það ekki!" –"Endurtakið söguna, sagði Sýslumaður".-"Já já, sko! Ég fór utan úr Höfn um dagmálin, já án þess að bragða vott né þurrt".-"Hvaða erindi áttirðu hingað?" spurði sýsli. –"Ja sko, erindið var nú bara að heimsækja hann Jón minn í Móhúsum, en þegar ég kom út í Bakkabúð voru þar nokkrir slánar. Ég þekkti suma en suma ekki. Þeir voru að mana hvern annan að slengja út fyrir pott brennivíns og ganga síðan austur að Garðbæ og aftur til baka út að búð. Sá sem kæmist út að búð átti að fá vínið gratís, en sá sem kæmist aftur til baka ætti að fá annan pott í premíu. Nú ég sagði sí sona, það sakar ekki að reyna. Það er sko ekki á hverjum degi að maður getur unnið sér inn pott brennivíns, sýslumaður góður, eða jafnvel tvo, svo ég bauð mig fram, ef þeir lofuðu að betala eftir skilmálunum. Þarna var Kalli-Kvenski, nýji ráðsmaðurinn á Stokkseyri. Hann fór að grínast og sagði að svona tyrðill eins og ég þyldi ekki að þefa að víni, hvað þá að slengja út pott. Ég sagði að þó hann væri stór og feitur og þyldi mikið, þá væri ég viss um að stóra nautið í Laugardælum, þyldi meira en hann.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, september 15, 2004

Sjóslysið á Bússu 1927

EITT FÓRST SKIP Á EYRARBAKKA ITAR GREINA,
FJÓRIR MENN ÞAR FENGU BANA,
FÖLIR DJÚPT Í LANDI SVANA.
Sr.Jón Hjaltalin, Friðarvísur 1808

Á þriðja áratug þessarar aldar,var flest á hvervanda hveli á Eyrarbakka. Kaupfélagið Hekla sem keypt hafði Einarshafnarverslun varð gjaldþrota og verslun sunnlenskra bænda fluttist frá Bakkanum til Reykjavíkur og Selfoss. Í kjölfarið hófst mikill fólksflótti úr þorpinu og fluttu flestir búferlum til höfuðborgarinnar.
Árið 1919 voru Eyrbekkingar 965 en árið 1927 töldust Eyrbekkingar 701 og hafði þá fækkað um 53 frá árinu áður. En þeir sem ekki kusu að leggja árar í bát,heldur þrauka áfram ,lögðu nú allt sitt traust á eflingu útgerðarinnar.

Útgerð frá Eyrarbakka hefur alltaf verið mikklum erfiðleikum háð af náttúrunar hendi og svo er með allri suðurströndinni. Þannig háttar til að úthafsaldan berst beint upp í fjöru, eða brottnar á skerjunum útifyrir með mikklum boðaföllum, tignarlegt sjónarspil með miklum drunum og dynkum, en ægileg hindrun þeim sem þarf björgina að sækja og ef sjólag var þannig gat brimað dögum saman. Oft var hættuspil að halda til sjós þó vel virtist viðra, því hvenær sem var gat hann rokið upp og bátarnir lokast úti. Afföll urðu líka oft mikil á Bakkaflotanum. Eitt árið fórust 10 bátar af 12 bátum Bakkamanna.
Eitt af þessum skipum var Sæfarinn eldri. Hann var 9-10 tonn að stærð, í eigu Guðfinns Þórarinssonar á Eyri. Á miðri vertíð 1926 rak hann á land í mikklu landsynningsveðri og gjörónýttist. Þá stóð svo á um haustið að Kristinn Vigfússon ákvað að selja bát sinn Framtíðina, sem var 9 tonna súðbyrtur dekkbátur með gafli. Meðeigandi Kristins, Sigurjón Jónsson á Litlu- Háeyri vildi hins vegar halda útgerðinni áfram og fékk því Guðfinn mág sinn sem þá var orðinn bátlaus, til að kaupa hlut Kristins og var nafni bátsins siðan breitt í Sæfara.
Nú var farið að búa bátana til vertíðar og ráða menn á þá. Einn þessara manna var Jónas Einarsson í Garðhúsum. Hann hafði Stundað sjóinn öll sín manndóms ár, en var nú tekinn að reskjast enda orðinn sextugur.
Hafði hann í fyrstunni ákveðið að láta af sjómennsku og reyna að fá sér vinnu í landi en þar sem litla vinnu var að hafa gerðist hann þúnglyndur og leið auðsýnilega illa. Dag nokkurn kom hann heim til sín kátur mjög og segir þær fréttir að hann ætli að róa næstu vertíð og sé búinn að ráða sig á Sæfarann. Þótti heimilisfólki hans þetta í meira lagi undarlegt þar sem afráðið hefði verið að hann hætti sjósókn.
Mikill óhugur var í fólki á Eyrarbakka um þessar mundir og þóttust ýmsir finna á sér illa atburði. Það sat líka í mörgum að vertíðina á undan hafði legið við stórslysi við suðurströndina þegar níu bátar frá Stokkseyri og Eyrarbakka lentu í vonsku veðri og náðu ekki heimahöfnum sakir óhemju brims. Áhöfnum togara tókst að afstýra því að manntjón yrði en sumir misstu þó báta sína.

Víkur nú að hinum örlagaríka degi 5. apríl 1927. Þennan dag klukkan átta um morgunin voru NA 8 vindstig á Eyrarbakka og sjór var vaxandi. Þegar kallað var til skips snemma morguns urðu þau einkennilegu mistök að í stað Bjarnfinns bróður formannsins á Sæfara var kallaður Kristinn Sigurðsson í Túni en hann átti að vera í landi vegna meiðsla á hendi. Skildi þar milli feigs og ófeigs.
Réru nú bátarnir frá Eyrarbakka og Stokkseyri vestur í Hafnarsjó, þar sem þeir áttu net sín. Upp úr hádeginu komu fyrstu bátarnir að landi og komust þeir klakklaust inn sundið. Nú snerist vindur til austanáttar og brimaði ört. Sæfarinn kom að sundinu klukkan hálf tvö eftir hádegi, Þá var búið að flagga einu flaggi sem táknaði að sund voru fær með aðgát.
Á sundinu Bússu eru tvö blindsker (Brekar). Yst á því er kletturinn Brynki, en á því miðju er svo kallaður Mannskaðanaddur og hafa þau margan kappan kollrakan gert. Segir nú ekki af ferðum Sæfarans fyrr en komið var inn á mitt sundið.
Við Mannskaðanadd tók sig upp boði, ekki mjög stór og braut á skipinu. Við þetta brot snerist Sæfarinn og lenti þversum á sundinu. Sáu menn nú úr landi að gaffall við stýrishúsið sem hélt bómuni uppi hafði losnað við höggið af brotsjónum. Hlupu nú tveir skipverjar til að reyna að skorða hann fastan en gekk það erfiðlega þar sem bóman slóst til og frá. Meðan skipið lá enn þvert á sundinu, kom annað brot á það og lagði skipið á síðuna. Mennirnir tveir á dekkinu komust á byrðinginn og héldu sér í borðstokkinn dauða haldi og vonuðu að báturinn rétti sig við. En þá reið þriðja brotið yfir bátinn og skolaði mönnunum af byrðingnum. Skipinu hvolfdi og tók þegar að sökkva. Á örskammri stund var Sæfarinn horfinn í heljargreipar Ægis og enginn maður sást upp koma.
Úr landi varð ekkert til bjargar á þessari ögurstund en skömmu síðar kom annað skip inn sundið og komst það klakklaust að landi. Það sló þögn á skipverja er þeir fregnuðu tíðindinn en nú var flaggað frá. Þrjú flögg í hálfa stöng en það táknaði að sundið var lokað öllum siglingum.
Nokkru siðar um daginn tóku belgir af Sæfaranum að reka á fjörur í Þorlákshöfn og vermenn þar tók að gruna að eitthvað hefði komið fyrir en fengu ekki nánari fregnir af slysinu fyrr en síðar.
Í þessu sama veðri fengu togararnir Maí og Karlsefni stór áföll á Selvogsbanka, þrír menn slösuðust um borð í togaranum Maí en tveir um borð í Karlsefni. Einnig urðu þrjú Færeysk skip fyrir áföllum, brotnuðu talsvert og mistu út báta.

Þegar Sæfarinn fórst voru margir sjónarvottar að slysinu úr landi. Menn stóðu í sjógarðshliðum eða vestur við sundvörður, innsiglingamerkin að Bússu og Einarshafnarsundi. Sumir þeirra voru nákomnir áhöfn Sæfarans, þar á meðal var Þórarinn Bjarnason í Nýjabæ, en formaðurinn á Sæfara var sonur hans. Þórarinn var þá mjög farinn að daprast sjón og sá því ekki hverju fram fór á sundinu. Varð hann því að spyrja þá er hjá honum stóðu, hvað liði siglingu skipsins inn sundið og fékk hann greið svör í fyrstu, en þegar armar Ægis höfðu hrifsað þetta litla skip með manni og mús, gengu flestir hljóðir burt en tveir menn tóku undir handleggi hans og leiddu heimleiðis. Þórarni fannst þetta undarlegt og spurði hverju þessu sætti, en engin fékk hann svörin að sinni og læddist nú ónata grunur að gamla manninum sem gekk þögull og þúngum skrefum með fylgdarmönnum sínum það sem eftir var leiðarinnar.
Einn þeirra sem sem í sjógarðshliðinu stóð er þetta gerðist var Jón Ásgrímsson hómópati. Einkasonurinn drukknaði þarna fyrir augum hans og fleyg urðu orð Jóns á þeirri stundu er hann sagði við þá er með honum stóðu í hliðinu."Jæja! þá er hann Villi minn farinn og best fyrir mig að fara til konu hanns og barna. Þá er að sinna því". Annar maður, Þórarinn Jónson frá Vegamótum missti einnig einkason sinn er Sigurður hét í þessu sama slysi. Þórarinn þessi (Afi söguritara) var dulur mjög að eðlisfari og lítið fyrir að berast á. Hann flíkaði lítt tilfinningum sínum. Þegar Þórarinn þoldi ekki lengur kveinstafi og grát kvennana sem komu til að votta þeim hjónum samúð sína gekk hann út í skemmu og tók að berja harðfisk. Ekki fékkst út úr honum eitt aukatekið orð langa stund.

Það töldu kunnugir menn að lestarborð hafi bilað er fyrsti sjórinn skall á skipinu og aflinn skolast út í aðra hliðina og því farið sem fór. En eftirtaldir menn fórust með Sæfaranum: Guðfinnur Þórarinsson formaður frá Eyri, 45 ára kvæntur 2.barna faðir. Páll Guðmundsson, vélamaður frá Leifseyri, 32.ára kv.6 b.f. Hásetarnir Jónas Einarsson í Garðhúsum, 60 ára kv.10 b.f. Sigurður Þórarinsson frá Vegamótum, 40ára ókv. Víglundur Jónsson í Björgvin, 35 ára kv.2.b.f. Ingimar Jónsson í Sandvík, 23.ára ókv. Kristinn Sigurðsson í Túni 19. ára ókv. og Gísli Björnsson frá Eystra Stokkseyrarseli 40 ára ókv. Samtals átta manns.

Annar kafli. " NÚ ER GUÐFINNUR DRUKKNAÐUR"
( Frásögn Jóhanns Guðmundssonar frá Gamla-hrauni )

Að morgni 25.apríl 1927 var austan strekkingur og heldur vindlegt. Því reri enginn formaður frá þorlákshöfn þann dag.
Vélbátar frá Stokkseyri og Eyrarbakka fóru flestir eða allir á sjó og réru vestur með landi . Þegar framm á daginn kom hvessti og hann fór að gera austan kviku eða "hornriðasjó"sem kallaður var og þótti oft slæmur.
Upp úr hádeginu fóru bátarnir að þokast austur á bóginn en ekkert vissum við í Höfninni hvernig lending var þá á Stokkseyri og Eyrarbakka. Um nónbilið var ég staddur inn í búð ásamt hásetum mínum, dró þá lítið eitt úr mér mátt svo ég hallaði mér upp á koddann. -Þá heyrist mér sagt við mig lágt, en skýrri röddu."Nú er Guðfinnur drukknaður með alla sína menn".-Við þetta glaðvaknaði ég og settist upp. Ég leit í kringum mig en sá engan aðkomumann í búðinni, svo ég hallaði mér aftur útaf og lá svo nokkra hríð og hugleiddi hver mannskaði hér væri orðinn, ef sannur reyndist. Því væri svo þá snerti það mjög tvo af hásetum mínum, Sigurð í Túni á Eyrarbakka og Árna son hans, því einn af Hásetum Guðfinns var Kristinn sonur Sigurðar og bróðir Árna.
Þegar ég hafði legið þannig útaf í svo sem tíu mínútur og hugleitt þetta, þá er barið að dyrum í búðinni. Er þar kominn maður frá Þorleifi Guðmundssyni, sem bjó í Höfninni. Hann spyr eftir þeim feðgum Sigurði og Árna. Segir hann að Þorleifur vílji finna þá.
Það haði borið svo við fyrir nokkru að togari strandaði við Hafnarnes og var verið að bjarga ýmsu lauslegu úr honum. Voru til þess teknir tveir til þrír menn úr búð þegar landlegur voru til þess að vinnan kæmi sem jafnast niður. Bjuggust þeir feðgar við að þeir ættu að fá vinnu við björgunina úr togaranum og sama hugðu aðrir búðarmenn. Þegar þeir feðgar voru farnir voru félagar þeirra að skrafa um að ekki mundu fleirri úr þeirra búð fá vinnuna í dag.- Ég settist þá upp og sagði við þá " Þið haldið auðvitað að Þorleifur sé að boða þá til vinnu, en ég held að svo sé nú ekki" -Hvað getur þá verið? spurja þeir-"Það get ég vel sagt ykkur ef ég vildi strákar minir" svaraði ég. Hugsaði ég þá með mér, að nú sé annaðhvort að gera -að segja frá því sem fyrir mig hafði borið eða þegja ella, svo ég ákvað að taka fyrri kostinn.-"Ég skal segja ykkur hvert erindið var, með því skilyrði að þið spyrjið engra frétta þegar feðgarnir koma aftur og látið sem ekkert sé því það ég veit að Guðfinnur er drukknaður með alla sína menn og erindið við þá feðga er það að Þorleifur hafi verið beðinn að tilkynna þeim látið hans Kristins í Túni, en við skulum þó vona að þetta reynist ekki rétt"
Litlu síðar koma þeir feðgar aftur og gengu þegjandi til rúmma sinna, en enginn spurði neins. Eftir littla stund rufu þeir þögnina og sögðu okkur þær fréttir að Guðfinnur hafi farist i lendingu á Eyrarbakka með allri áhöfn, átta mönnum.

Hásetar mínir sem staddir voru í búðinni, hafa boðist til að vitna að hér sé rétt frá sagt. Af þeim skal ég aðeins nefna fjóra sem ég hef borið frásögn mína undir ekki alls fyrir löngu, en þeir eru:-Þóroddur Ingiber Guðmundsson frá Núpum, (f.1/6 1901) Ragnar Sigurðsson frá Þúfu, (f.10/1 1902) Björn Sigurðsson frá Vötnum (f.26/10 1900) og Hjörtur Sigurðsson frá Auðsholtshjáleigu.(f.4/1 1898)

Heimildarmenn af þessari sögu voru eftirtaldir: Kristinn Jónassson Garðhúsum Eyrarbakka (sjónarvottur) Guðmundur kristinsson,Kristinn Vigfússon,staðarsmiður.
aðrar heimildir,Veðurstofa Íslands,Veðráttan 1926 og 1927.
að mestu skrifað 1968. Sig.Andersen. Greinin birtist í Lesbók Morgunblaðsins lítið breytt Laugardaginn 15. ágúst, 1998
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=413884

Ekki má ég á ægi,
ógrátandi líta,
síðan márvinir mínir,
fyrir marbakkan sukku.
Leiður er mér sjávarsorti
og sígandi bára.
Nildur gerði mér harðan,
harm í unnar formi.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, september 14, 2004

M/S Njáll strandar á Eyrarbakka 1906

Frásögn Þórarinns Jónssonar frá Vegamótum.
Ég held að ég hafi verið átján ára eða þar um bil, þegar Njáll slitnaði upp af legunni og rak á Sundvörðukampinn. Skipið var nýkomið frá Reykjavik þá um hustið og var með fullfermi af 200 punda rúgmjölssekkjum sem ekki var farið að skipa upp.
Þetta mun hafa verið í september 1906. Nokkuð seint um kvöldið tók að hvessa mikið af aust landsunnan og minnist ég þess að ég og fleira fólk fórum út í heygarðinn sem hér var fyrir norðann húsið og fórum að tína til hey frá Ólafi heitnum, sem byrjað var að fjúka. Þegar við vorum umþaðbil að ljúka við að festa heyið, þá var komið ofsaveður og rétt í því fór ég að taka eftir glömpum og glæringum í vestri frá okkur séð. Ég fór að hafa orð á þessu við hina sem með mér voru í heygarðinum. Þá vissi ég ekki að þetta voru svokallaðar rakettur-en þær voru vísast nýtilkomnar um þetta leiti- en félagar mínir töldu að þetta væru þesskonar skot og líklegast hefði eitthvað orðið að úti á höfninni.
Fleira fólk hefur orðið vart við ljósaganginn, þvi það dreif að margmenni og safnaðist við vestugaflinn á Bakaríinu, en þar sem sjór var farinn að ganga inn úr sjógarðshliðum, þá þorði fólk ekki út með sjó eins og það var kallað að ganga með sjávarkambinum. Við frettum svo frá manni sem kom vestur með sjó að Njáll hefði slitnað frá leguni.
Nokkrir hugaðir menn fóru því vestur eftir sjó og var þá báturinn kominn svo hátt upp á kambinn við vörðurnar (Sundvörður) að skutur skipsins stóð á móts við eystri vörðuna en stefnið vísaði upp til lands.
Áhöfnin var enn öll um borð í skipinu þegar það rak á land, en rendu sér nú niður borðstokkinn nema skipstjórinn sem sem auðheyrt var að væri norskur eða danskur af skipunum hans dæma. Þarna var líka vélamaðurinn Helgi Magri ásmt bróður sínum og stýrimaðurinn Jón í Melshúsum.
Talsverður bútur af keðjuni var fastur við stefnið og lá með því upp í fjöruna, en mjölið var allt óskemt og var það borið á börum austur að markarlág og þótti það mörgum vondur og erfiður burður enda yfir lausasand að fara, en þaðan voru lagðir teinar sem teknir voru frá bryggjunni og lágu nú frá Markarlág og út að Vesturbúðum, en í þá framkvæmdir var farið flljótlega eftir strandið.
En vorið eftir var síðan unnið í tvær vikur við að undirbúa sjósetningu skipsins á nýjan leik. Var þá grafið frá skipinu og sleða komið fyrir undir því og höfðu margir menn starfa af þessu. Þegar allt var til reiðu kom gufuskip frá Noregi og lá það á leguni, en frá því lagðar tilfæringar út í sker utan við leguna á móts við Einarshafnarvör. Það þurfti síðan að bolta teina í klappirnar alla leið níður í Einarshafnarvör svo skipið gæti runnið eftir þeim á sleðanum sem fyrir hafði verið komið undir því.
Því næst var gufuskipið látið toga í Njál og gekk þetta allt ágætlega og fyrr en varði var Njáll kominn út á leguna og lá nú á milli skáhaka og míganda eins og ekkert hefði í skorist.
Að sjósetningu lokinni fór ég beint í það verk sem setið hafði á hakanum meðan á öllu þessu stóð,en það var að grafa svokallað landamerkjaok milli Kaldaðarnes og Flóagaflstorfanna
.

Efnisorð: