Eyrarbakki - Saga og Atburðir

Eyrarbakki, sögustaður frá landnámi. Gamlar sögur og atburðir sem tengjast þessum stað.

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Eyrarbakki, Iceland
þorskur.JPGboat1359-Álaborg ÁR 25Björgunarsveitin Björg.BMPEyrarbakki RollerEyrarbakki

föstudagur, desember 17, 2004

Sagan af Jóni í Túni.

Jón Sigurðsson formaður í Túni og Melshúsum var lengi hafnsögumaður á Eyrarbakka. Tók hann við því starfi af Magnúsi Ormsyni og Ólafi Teitssyni sem báðir höfðu gengt því um langan tíma. Jón mun hafa þótt traustur í starfi og ekki vitað að slys hafi hent undir hans stjórn utan einu sinni með þeim afleiðingum sem sagan greinir hér frá:

Þetta gerðist 19. ágúst 1895 er verið var að flytja skreið úr mótorskipinu Reykjavík til lands en skreiðina hafði Reykjavíkin sótt til Grindavíkur. Skreiðina átti að geyma í vöruskemmu verslunarinnar á Eyrarbakka, þar sem hún skyldi bíða útflutnings.
Veðri var þannig háttað þennan dag að á var sunnan andvari og þykkt í lofti. Dálítill brimhroði var um morguninn og fór vaxandi á útfallinu eins og oft vill vera. Guðmundur á Háeyri sem var umboðsmaður skipsins hafði farið út að Reykjavíkinni á sínum báti þá um morguninn en þar sem óvíst þótti að bátur hans gæti tekið alla skreiðina í einni ferð og að Reykjavíkin vildi hafa sem skemmsta viðdvöl, varð það að ráði að Jón í Túni (Síðar Melshúsi) var sendur til að taka það sem eftir kynni að verða af skreiðinni um borð í Reykjavíkinni. Þar sem þetta var um há sláttinn og fáir menn tiltækir, þá lánaði Lefolii-verzlun nokkra menn á skip Jóns í Túni. Þeirra á meðal var Guðjón í Mörk sem var pökkunarmaður í ullartöflunum og Jón í Görðum. Á útleiðinni fékk skip Jóns í Túni á sig nokkurn sjó en að skaðlausu. Er þeir koma að Reykjavíkinni er skip Guðmundar á Háeyri nærri full-lestað og virtist einfært um að flytja alla skreiðina til lands en þó var lítilsháttar varningur settur í skip Jóns í Túni til að létta bát Guðmundar. Þar sem Guðmundur þótti fáliðaður fóru nokkrir menn af skipi Jóns yfir til Guðmundar. Jón á Litlu-Háeyri sem kallaður var “Litli-Sterkur” ætlaði yfir til Guðmundar en er hann var kominn með annan fótinn yfir í bát hans, snerist honum hugur því honum þótti nógu margir menn komnir í skip Guðmundar.

Jón í Túni vildi þegar leggja frá en Guðmundur á Háeyri bað hann um að bíða þar til félli að því eins og hann sagði,"þú stýrir ekki inn sundið, fáir þú á þig líkan sjó og þú fékkst á útleiðinni". En Jón sem að venju var fámæltur svaraði engu, lagði frá og hélt á sundið. Þegar hann var kominn innarlega á Einarshafnarsund tók sig upp boði og þreif tvo menn útbyrðis af bátnum og drukknuðu þeir báðir. Það voru þeir Jón Jónsson á Litlu-Háeyri (Litli-Sterkur) og Guðjón Þorsteinsson í Mörk. Þriðja manninn Jón Þorsteinsson í Görðum greip sjórinn einnig þar sem hann sat aftur á bita og kastaði honum fram á þóftu og kom bringa hans í þóftuna og slasaðist hann svo við það að hann lést af áverkum þeim 18 dögum síðar.
( Jón Jak-Guðmundur í Steinskoti- Toggi í Réttinni)

Litli-Sterkur var grafinn fyrstur sjódrukknaðra manna í Eyrarbakkakirkjugarði en faðir hans Jón-Sterki var grafinn í þeim sama garði fyrstur manna
.

Efnisorð: ,

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home