Eyrarbakki - Saga og Atburðir

Eyrarbakki, sögustaður frá landnámi. Gamlar sögur og atburðir sem tengjast þessum stað.

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Eyrarbakki, Iceland
þorskur.JPGboat1359-Álaborg ÁR 25Björgunarsveitin Björg.BMPEyrarbakki RollerEyrarbakki

miðvikudagur, ágúst 11, 2010

Hleðslumaðurinn Þorleifur ríki

Þeir báru ekki alltaf mikið úr býtum, verkamennirnir á Eyrarbakka í eina tíð og þannig var það þegar sjógarðurinn fyrir Skúmstaðarlandi var hlaðinn á árunum milli 1830 og 1840 að verkamenn töldu laun sín ekki hrökkva fyrir fatasliti. Þó var þar í hópi einn maður sem lést vel við una. Það var Þorleifur Kolbeinsson sem þá var ungur maður og seinna kaupmaður á Háeyri og gekk þá undir nafninu Þorleifur ríki. Sagt var að á kvöldin eftir að vinnu lauk, hafi hann gert leit umhverfis búðir verslunarinnar að skinnsneplum og vaðmálssnifsum sem lestarmenn höfðu látið eftir liggja, en notuðu annars undir reiðinga. Hafði Þorleifur sitthvað upp úr þeirri leit og sat á kvöldum við að bæta flíkur sínar og skó með ræksnum þessum. Enda mun honum hafa enst sami búnaðurinn meðan á verki þessu stóð, sem var eitthvað á þriðja ár.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, ágúst 10, 2010

Svo far nú veröld vel

Þegar einn af Kambránsmönnum Sigurður Gottvinsson var í gæslu á Óseyrarnesi eftir tvenn strok var hann geymdur í járnum í sérstöku trébúri. Þegar veður var gott fékk hann að fara út að viðra sig litla stund.
Eitt sinn er svo bar við, sá hann velmerktarmann ríða vestur í ferjustað í Óseyri og reið hann illa hesti þeim sem Sigurður hafði átt en kaupmaður keypt á uppoði sem fram hafði farið á eignum hans. þá sást hann vikna og tár hrukku af hvörmum í það eina sinn í vistinni er hann gekk aftur til kompu sinnar og sagði "Svo far nú veröld vel".

En dómari hans Þórður Sveinbjörnsson Sýslumaður í Árnessýslu sagði við annað tækifæri, er sumum þeim sem í sakamálin flæktust var beðið vægðar við dómsransókn á Kambránsmálinu " Réttvísinni fullnægist og heimurinn fari fjandans til".

Efnisorð: