Eyrarbakki - Saga og Atburðir

Eyrarbakki, sögustaður frá landnámi. Gamlar sögur og atburðir sem tengjast þessum stað.

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Eyrarbakki, Iceland
þorskur.JPGboat1359-Álaborg ÁR 25Björgunarsveitin Björg.BMPEyrarbakki RollerEyrarbakki

laugardagur, febrúar 19, 2005

Mikligarður


Mikligarður
Originally uploaded by Odinnk.

Nú er verið að endurbyggja Miklagarð á Eyrarbakka sem verður í framtíðinni nýtt sem veitingahús og menningasetur. Þetta framtak mun væntanlega lyfta þorpinu á hærri stall sem ferðamannastaður þar sem bæði nútíma Íslendingum og erlendum ferðamönnum gefst tækifæri til að kynnast strandmenningu og þorpsbúum þar sem saman fléttast forn menning og nútíma lífshættir.

Mikligarður var byggður sem verslunarhús árið 1919 af Guðmundu Níelsen Tónskáldi og verslunarkonu og rak hún verslun í Miklagarði um nokkura ára skeið. Guðmunda var ættuð úr Húsinu á Eyrarbakka og nam verslunarrekstur hjá Lefolii-versluninni. Hampiðjan setti á stofn netagerð í Miklagarði árið 1942 sem rekin var um nokkura áratuga skeið og var þá jafnframt byggð önnur hæð ofan á húsið. Eftir 1960 var rekin plastiðja í byggingunni og þá var reist skemma áföst húsinu sem nú hefur verið rifin. Eftir að plastiðjan var flutt á Selfoss 1986 hafði Alpan hf. nýtt húsnæðið sem vörugeymslu,en síðustu ár hefur byggingin staðið auð og óupphituð.

Mikligarður komst í eigu Eyrarbakkahrepps eftir að hreppurinn og Alpan hf. höfðu makaskipti á eignum,en Alpan tók þá við stórri skemmu sem var í eigu hreppsinns. Við sameiningu sveitarfélaganna færðist Mikligarður til Árborgar en nú hefur hlutafélagið Búðarstígur 4 ehf eignast húsið með því skilyrði að gera það upp. Mikligarður telur kjallara og tvær hæðir og er 250 fermetrar að grunnflatarmáli

Stjórnarformaður Búðarstígs 4 ehf er Ari Björn Thorarensen en byggingastjóri er Haraldur Ólason byggingameistari.

Efnisorð: ,

laugardagur, febrúar 05, 2005

Veiðimennirnir.


Skammt vestan þorpsins rennur Ölfusá til sjávar og landið sem liggur að ósnum nefnist Óseyri. Sandburður er þar oft á tíðum mikill og landið að mestu hulið svörtum sandi sem í seinni tíð hefur þó í ríkum mæli verið græddur upp með melgresi. Vestur með ósnum gengur Lax og Silungur. Gengur hann alveg vestur að Einarshafnarvör. Á Hellunum eða klöppunum vestur með Einarshafnavör má stundum sjá veiðimenn munda stangir sínar og takast á við sjóbirtinginn.

Fyrstur manna til að leggja laxanet á Hellurnar var Halldór Jónnson, bróðir Ólafs Jónssonar í Búðarstíg. Þetta var árið sem hafist var handa við byggingu sandvarnargarðsins.
Halldór lagði net sín í lónið vestur undan Sundvörðum og alveg upp við sand, en áður hafði Jón Valgeir, bróðursonur hans veit lax í silunganet í öðru lóni austur undann sandvarnargarðinum og liggur það mun utar. Fljótlega fóru menn að amast við þessu tiltæki félaganna. Einkum af mönnum sem unnu við gerð sandvarnargarðsins og varð Halldór sérstaklega fyrir ónotaskotum frá þeim þar sem lagnir hanns voru vel í kallfæri við byggingamennina.
Halldór veiddi vel og garðasmiðir fylltust öfund og á þá brast veiðihugur. Þeir urðu sér út um net og hófu að leggja á hellurnar við garðinn í harðri samkeppni við Halldór.
Ekki átti Jón Valgeir heldur sjö dagana sæla með sitt net í austurlóninu. Því nú brá svo við að laxveiðimennirnir í Gamla-Nesi. Aðalega þeir Einar Jónsson í Túni og Lúðvík Guðmundsson úr Reykjavík fóru að amast við Jóni, en Lúðvik var yfirmaður með laxveiðinni í Nesi. Einar tjáði Jóni Valgeiri að hann hefði lagalega séð stolið þessum laxi frá veiðifélaginu sem leigði veiðiréttinn í Nesi. Þessu reyddist Ólafur faðir Jóns Valgeirs svo mjög að hann klagaði fyrir Magnúsi Torfasyni sýslumanni og sagði að þeim kumpánum færist illa að tala um þjófnað sem sjálfir stunduðu sína veiði ólöglega um helgar með því að hirða laxinn úr gildrunni.

Magnús bað nú Ólaf að koma með sér út í Nes um næstu helgi og sjá hvers þeir yrðu vísari í þessum efnum. Fóru þeir svo eins og um var talað út í Nes og hittu fyrir þá félaga Einar og Lúðvík sem voru í óða önn að hirða lax úr gildrunni. Varð Magnús nú hinn versti og kærði athæfið.
Aldrei var þó dæmt í málinu vegna þess að áður en til þess kom lagðist Lúðvík veikur og lést skömmu síðar. Þar sem hann var yfirmaður bar hann ábyrgð á verknaðinum. Því var málið látið niður falla.

(Heimildir: Jón Valgeir Ólafsson og Jón Jakopsson.)

Efnisorð: ,