Í upphafi læknadeilunnar á Eyrarbakka (1913-1939) var Ágúst Blöndal héraðslæknir á Eyrarbakka en varð berklaveikur og varð því að hætta lækningum, en þá var einnig praktíserandi læknir hér Konráð að nafni. Þegar það fréttist að Ágúst mundi hætta sem héraðslæknir upp hófust deilur um það hver ætti að hljóta embættið eftir hann. Almenningur var mjög mótfallinn því að annar en Konráð fengi embættið og gengu undirskriftalistar honum til stuðnings sem síðan var komið til Landlæknis. En þar var skorað á landlækni að veita Konráð og engum öðrum héraðið.
Landlæknir varð ekki við óskum þessum og veitti Gísla Péturssyni lækni á Húsavík héraðið. En áður en hann kom suður skrifaði Guðmundur Sigurðsson sparisjóðsstjóri honum bréf þar sem hann varaði Gísla við að koma suður vegna afstöðu almennings á Eyrarbakka. Með Gísla stóðu hinsvegar höfðingjar héraðsins svo sem Níelsen í Húsinu, Sigurður Sýslumaður í Kaldaðarnesi, prests fjölskyldan á Stóra-Hrauni, Arnarbælisfólkið og Laugardælafólkið. Nokkru eftir að Gísli kemur til Eyrarbakka (1916) brann hús hans og flestir húsmunir. Kom sá kvittur utan frá að Eyrbekkingar hefðu kveikt í húsinu. Svo hörð og óvægin væri þessi læknapólitík. Hinsvegar var mjög fljótlega farið af stað með söfnun fjár til styrktar Gísla vegna húsbrunans og fyrir tilstilli sr.Ólafs Magnússonar í Arnarbæli var haldin skemmtun með fyrirlestrum úti í Þorlákshöfn í þessu skyni.
Þegar Konráð læknir síðan fer af Bakkanum, komu þeir Gunnlaugur Einarsson og Jónas Rafnar hvor á eftir öðrum, en voru aðeins um stuttan tíma. Árið 1921 kemur svo Lúðvík Norðdal. en þrátt fyrir þessi mannaskipti hélt læknapólitíkin áfram enn um sinn. En svo bar hinsvegar við að þegar kom að hreppspólitíkinni þá treystu Eyrbekkingar Gísla manna best til að fara með málefni hreppsins.
Efnisorð: Sögur Sigurðar